Sunnudagur, 26. júní 2011
Kvótakerfið hefur valdið ómældum skaða í sjávarbyggðum
Það er unnt að nefna mörg dæmi um það hvernig kvótakerfið,handhafar kvótanna,hafa farið með sjávarbyggðirnar: Frystihúsinu á Stokkseyri var lokað.Sagt var að fiskur af bátum frá Stokkseyri yrði unninn í Þorlákshöfn og fólk frá Stokkseyri fengi þar vinnu. En síðan var því hætt einnig.Farið var með kvótann á burtu frá Breiðdalsvík og Stöðvarfirði og frystihúsin þar skilin eftir kvótalaus,fisklaus. Því var lofað,að hinum aflasæla togara,Guðbjörginni, yrði alltaf haldið úti frá Ísafirði.Kvóti skipsins yrði ekki tekinn frá Vestfjörðum.Það var svikið. Og þannig mætti áfram telja.Það liggur við að unnt sé að fara allt í kringum landið og nefna svipuð dæmi og hér að framan. Stóru útgerðirnar hafa keypt fiskiskip og togara í fiskiplássum út um allt land. Fyrst er lofað,að aflinn verði lagður upp í hlutaðeigandi sjávarplássi en eftir stuttan tíma er það svikið og farið burt með skip og kvóta og frystihúsið skilið eftir fisklaust. Þegar svo er komið hríðfalla húsin í sjávarplássinu í verði.Fólkið er atvinnulaust og verður jafnvel að fara í burtu. Hagfræðingarnir eru ekki búnir að reikna út þann mikla skaða,sem kvótakerfið hefur valdið. Þó gerðar verði nú nokkrar ráðstafanir til þess að efla útgerð í sjávarbyggðum verður aldrei unnt að bæta að fullu þann mikla skaða,sem kvótakerfið hefur valdið.
Björgvin Guðmundsson
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Björgvin. Takk fyrir þennan sanna pistil. Það er ólíðandi að ekki sé horfst í augu við staðreyndir í fiskveiðistjórnuninni og landspólitíkinni, og unnið út frá staðreyndum, sem allir vita um.
Bendi enn einu sinni á YouTube: Svindlið í kvótakerfinu í Kompás.
M.b.kv.
Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 26.6.2011 kl. 10:55
Halldór Ásgrímsson gekk erinda fárra Sambandsfrystihúsa á Norðurlandi, sem ekki gátu sætt sig við að sitja við sama borð og aðrir í SÓKNARMARKINU, þegar hann setti Kvótakerfið. Það er búið að vera til óþurftar síðan.
Kvótastýring hámarkar ekki afraksturinn af því aflaráðgjöfin er alltaf á eftir ástandinu á stofnunum. Grisjun fiskstofna verður ekki nóg í "góðærum" og eins og þú nefnir svo vel Björgvin óréttlætið gagnvart byggðarlögum og einstaklingum er mikið.
Við áttum gott kerfi sem sannanlega byggði ekki bara upp stofnanna heldur var mikil uppbygging hringinn í kringum landið tengd útgerðinni. Kjartan Jóhannsson setti réttilega stopp á innflutning skuttogara þegar komnir voru rúmlega 80 skip.
Við eigum að taka upp Sóknarmark með 85 togurum og allan fisk á markað. Þá getur Þjóðin verið sátt. Menn ráða síðan hver tekur þátt í veiðum og vinnslu engan skal neyða.
Ólafur Örn Jónsson, 26.6.2011 kl. 12:22
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.