Mánudagur, 29. ágúst 2011
Ísland fyrst til að útskrifast frá AGS í yfirstandandi fjármálakreppu
Stjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins samþykkti á föstudaginn síðustu endurskoðun efnahagsáætlunar Íslands sem þar með varð fyrsta ríkið til að útskrifast úr slíkri áætlun í yfirstandandi alþjóðafjármálakreppu. AGS samþykkti efnahagsáætlun íslenskra stjórnvalda í nóvember 2008. Samstarf Íslands og AGS hefur vakið mikla athygli fyrir árangur á nokkrum meginsviðum; stöðugleiki í hagkerfi hefur náðst, fjármálakerfi reist að nýju, ríkisfjármál aðlöguð að gjörbreyttum aðstæðum og endurnýjaður aðgangur ríkisins að alþjóðlegum mörkuðum var staðfestur í velheppnuðu skuldabréfaútboði í júní.. Efnahagur þjóðarinnar hefur tekið við sér, spár gera ráð fyrir tæplega 3% hagvexti á árinu. Krónan hefur náð stöðugleika og styður vel við útflutningsgreinar og umtalsverður afgangur er af vöru- og þjónustuviðskiptum við útlönd. Stýrivextir eru nú 4,5% en fóru hæst í 18% í nóvember 2008. Atvinnuleysi er enn hátt en minnkar hraðar en búist var við og hefur ekki verið lægra frá hruni. Kaupmáttur fer vaxandi á ný og hefur ekki verið hærri frá hruni. Árangurinn í ríkisfjármálum er mikill. Búið er að ná tökum á skuldum ríkisins og hlutfall skulda af VLF mun fara lækkandi á næstu árum. Ríkisfjármálin hafa verið tekin föstum tökum með það í huga að tryggja sjálfbæra skuldastöðu, aðlögun ríkisfjármálanna hefur falist jöfnum höndum í lækkun útgjalda og hækkun tekna.
Í ljósi árangursins hafa áætlanir ríkisins verið endurskoðaðar, m.a. mun ný ríkisfjármálaáætlun, sem hefur það helst að markmiði að styðja betur við efnahagsbatann verða birt samhliða framlagningu fjárlagafrumvarpsins 1. október nk.(Heimasíða Samfylkingar)
Björgvin Guðmundsson
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.