Föstudagur, 9. september 2011
59% vill leyfa landakaup Nubos
Stuðningsmenn Vinstri grænna skera sig frá öðrum með almennri andstöðu við að Huang Nubo fái að kaupa Grímsstaði samkvæmt nýrri skoðanakönnun Fréttablaðsins og Stöðvar 2. Meirihluti landsmanna vill heimila landakaupin.
Innan við fjórðungur prósent stuðningsmanna Vinstri grænna vilja að kínverski kaupsýslumaðurinn Huang Nubo fái að kaupa stóra landareign á Grímsstöðum á Fjöllum, samkvæmt skoðanakönnun Fréttablaðsins og Stöðvar 2 sem unnin var í gærkvöldi. Þetta er áberandi lægra hlutfall en meðal stuðningsmanna annarra flokka.
Alls sögðust 59,1 prósent þeirra sem afstöðu tóku í könnuninni mjög eða frekar hlynntir landakaupunum. Um 22,7 prósent sögðust hlutlausir, og 18,2 prósent sögðust mjög eða frekar andvígir.
Bæði innanríkisráðherra og kínversk stjórnvöld þurfa að samþykkja kaupin, eigi þau að ganga eftir.
Þegar skoðuð er afstaða fólks eftir því hvaða flokk það segist myndi kjósa yrði gengið til þingkosninga nú kemur í ljós að stuðningur við landakaupin er áberandi minnstur meðal stuðningsmanna Vinstri grænna.
Um 23,5 prósent þeirra sem segjast myndu kjósa flokkinn yrði gengið til kosninga nú segjast mjög eða frekar hlynnt kaupunum og um 26,5 prósent segjast hlutlaus, en 50 prósent segjast mjög eða frekar andvíg því að kaupin nái fram að ganga.
Stuðningur við landakaupin er mun meiri meðal stuðningsmanna hins stjórnarflokksins. Alls sögðust 65,6 prósent stuðningsmanna Samfylkingarinnar hlynnt kaupunum, 14,1 prósent sögðust hlutlaus og 20,3 prósent á móti.
Af stuðningsmönnum Sjálfstæðisflokksins sögðust 65,1 prósent mjög eða frekar hlynnt kaupunum, 23,4 prósent sögðust hlutlaus en 11,4 prósent mjög eða frekar andvíg.
Stuðningur við landakaupin reyndist mestur meðal þeirra sem myndu kjósa Framsóknarflokkinn. Úr þeim hópi sögðust 74,4 prósent hlynnt landakaupum Nubo, 9,3 prósent sögðust hlutlaus en 16,3 prósent andvíg kaupunum.
Hringt var í 800 manns fimmtudaginn 8. september. Þátttakendur voru valdir með slembiúrtaki úr þjóðskrá. Svarendur skiptust jafnt eftir kyni, og hlutfallslega eftir búsetu og aldri.
Spurt var: Hversu hlynnt(ur) eða andvíg(ur) ertu því að kínverski kaupsýslumaðurinn Huang Nubo fái að kaupa land á Grímsstöðum á fjöllum?
Björgvin Guðmundsson
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.