Mánudagur, 12. september 2011
2/3 vilja halda samningaviðræðum við ESB áfram
Tæplega tveir af hverjum þremur landsmönnum vilja að Ísland ljúki aðildarviðræðum við Evrópusambandið svo hægt sé að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um niðurstöður viðræðnanna samkvæmt skoðanakönnun Fréttablaðsins og Stöðvar 2. Alls sögðust 63,4 prósent þeirra sem afstöðu tóku í könnuninni vilja halda viðræðum áfram en 36,6 prósent vildu draga aðildarumsóknina til baka.
Örlítið virðist hafa dregið úr stuðningi við að ljúka viðræðum frá því Fréttablaðið kannaði afstöðu til málsins síðast, í janúar síðastliðnum. Þá vildu 65,4 prósent ljúka viðræðum en 34,6 prósent draga umsóknina til baka.
Stuðningsmenn Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna klofna í tvo svipað stóra hópa í afstöðu sinni til spurningarinnar. Um 48,9 prósent sjálfstæðismanna vildu halda umsóknarferlinu áfram og 52,8 prósent stuðningsmanna Vinstri grænna.
Stuðningsmenn Samfylkingarinnar vildu nær allir ljúka viðræðunum. Aðeins 4,3 vildu draga umsóknina til baka. Öðru gildir um þá sem segjast myndu kjósa Framsóknarflokkinn yrði gengið til kosninga nú. Um 67,4 prósent þeirra sögðust vilja draga umsóknina til baka.
Karlar vilja frekar ljúka viðræðunum en konur. Um 67,5 prósent karla voru þeirrar skoðunar en 59,2 prósent kvenna.
Meiri stuðningur er við að ljúka viðræðunum á höfuðborgarsvæðinu en á landsbyggðinni. Um 68,5 prósent íbúa höfuðborgarinnar vilja klára viðræðurnar, en 52,3 prósent íbúa landsbyggðarinnar.
Hringt var í 800 manns fimmtudaginn 8. september. Þátttakendur voru valdir með slembiúrtaki úr þjóðskrá. Svarendur skiptust jafnt eftir kyni og hlutfallslega eftir búsetu og aldri. Spurt var: Hvort myndir þú heldur kjósa: 1) Að draga til baka umsókn um aðild að Evrópusambandinu, eða 2) Að ljúka aðildarviðræðum við Evrópusambandið og halda þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarsamninginn? Alls tóku 87,5 prósent afstöðu.-
(visir.is)
Þessi niðurstaða kemur ekki á óvart.Það eru aðeins fulltrúar stjórnarandstöðunnar sem vilja hætta samningaviðræðum og afturkalla umsókn um aðild að ESB.Íslendingar mundu gera sig að athlægi á alþjóðavettvangi ef þeir afturkölluðu umsókn,sem þeir höfðu sent á löglegan hátt og alþingi hafði samþykkt.
Björgvin Guðmundsson
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Sæll Björgvin.
Þið ESB aðildarsinnar megið svo sem ásamt Fréttablaðinu lifa í þeirri sjálfsblekkingu að svona sé staðan og raunveruleikinn.
Fall ykkar ESB sinna verður bara enn meira þegar þjóðin hafnar ESB með yfirgnæfandi meirihluta, hvernig sem þessi samningur annars verður.
Þessi staða er algerlega á skjön við aðrar faglegar kannanir sem gerðar hafa verið um þetta málefni að undanförnu.
Enda kemur í ljós þegar málið er skoðað betur að spurningunum er hagað með vægast sagt undarlegum hætti. Í seinni spurningunni eru eiginlega tvær spurningar þar sem að þú þarft að lýsa þig andsnúinn þjóðaratkvæðagreiðslu um málið til þess segja ekki já við henni.
Þetta er blekkingarleikur og ófaglega unnið og ómarktækt með öllu og heitir að hanna niðurstöður skoðanakannana !
Gunnlaugur Ingvarsson (IP-tala skráð) 12.9.2011 kl. 08:40
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.