Þriðjudagur, 1. nóvember 2011
Algert uppnám vegna þjóðaratkvæðagreiðslu í Grikklandi
Gengi bréfa á hlutabréfamörkuðum féll um allan heim í dag í kjölfar ákvörðunar Georges Papandreous, forsætisráðherra Grikkja, um að leggja róttæka niðurskurðaráætlun í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ákvörðunin vakti furðu, enda er niðurskurðurinn forsenda þess að björgunaráætlun ESB gangi í gegn.
Umdeilt er hvað býr að baki ákvörðun Papandreous. Bent hefur verið á að hann sé í nauðvörn og njóti lítils stuðnings. Hann hefur sjálfur sagt að hann þurfi mikinn og afgerandi stuðning til að koma erfiðum niðurskurðaráformum í gegn. Þannig sé hægt að líta svo á að hann hafi stillt þeim upp við vegg sem ekki styðja áform hans. Einnig sé til þess að líta að niðurfellingar lána og björgunarsjóður sem hafa verið kynnt dugi ekki til að leysa vanda Grikkja.
Uppnám er líklega lykilorð dagsins. Leiðtogar Evrópusambandsríkjanna voru hissa og létu lítið í sér heyra - en þeir sem sendur frá sér yfirlýsingar og láku einhverju í fjölmiðla kunnu Papandreou litlar þakkir fyrir ákvörðunina. Sömu sögu var að segja heimafyrir. Gríska stjórnarandstaðan var æf.
Antonios Samaras, leiðtogi Nýja demókrataflokksins, sagði forsætisráðherrann reyna að bjarga sjálfum sér með bregða til ráðs sem geti sett framtíð Grikklands, og stöðu þess innan Evrópu, í hættu.
Meira að segja þingmenn sósíalistaflokks Papandreous eru ósáttir. Sex hafa sagt sig úr flokknum og ekki einu sinni fjármálaráðherrann vissi af útspilinu. Hættan er sú að Grikkland verði hreinlega gjaldþrota og þess vegna bið ég forseta lýðveldisins að axla ábyrgð, kalla saman leiðtoga stjórnmálaflokkanna og mynda nýja þjóðstjórn sem tryggir nýja pakkann, sagði Vasso Papandreou, þingmaður sósíalistaflokksins.
Hagfræðingurinn Vangelis Agapitos var ekki sáttari. Ríkisstjórnin hefur engan skilning á þeim tímaskorti sem blasir við gríska hagkerfinu. Hver borgar lífeyrinn í desember? Hvers konar jól halda opinberir starfsmenn og lífeyrisþegar?
Viðbrögðin við fréttunum frá Grikklandi hafa verið ráðaleysi og áföll, segir Robert Halver, fjármálasérfræðingur Baader-bankans. Óvissan er nákvæmlega sú sama og fyrir fjórum vikum. Við höfum ekkert lært. Neyðarfundir ESB gerðu ekkert gagn.
Skiptar skoðanir eru um þjóðaratkvæðagreiðsluna hjá grískum almenningi. Jóhannes Lyberopoulos sem býr í Aþenu segir að Grikkir séu hálf ringlaðir yfir þessari ákvörðun og ekki sé ljóst hvort þjóðin sé með eða á móti atkvæðagreiðslunni. Fólk veit ekki hvort þetta sé rétt eða ekki. Það eru allir að bíða eftir hvernig verður spurt. Og þá held ég að við fáum meira að vita.
Jóhannes telur að þetta verði eflaust ekki einföld já eða nei spurning. Málið sé miklu flóknara en það. Hann segir að ákvörðunin hafi komið Grikkjum jafn mikið á óvart og öðrum Evrópuþjóðum. Þjóðin hafi ekki beðið um þjóðaratkvæðagreiðslu heldur lausn á vandamálunum. Við erum nú þegar búin að skrifa undir rosalega marga samninga. Þannig að það sem við erum að skrifa undir núna er bara einn samningur í viðbót. Og að hafa eina þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort við eigum að skrifa undir þennan samning eða ekki, það leysir ekkert vandann sem Grikkland er í í dag.
Jóhannes telur að fari þjóðaratkvæðagreiðslan fram í janúar, eins og áformað er, verði svo mikið annað búið að gerast í millitíðinni að hún verði orðin úrelt. Hann segir Grikki verða daufari í dálkinn með hverjum deginum. Fólk á minni og minni pening, fær lægri laun en samt kostar allt jafn mikið og áður. (visir.is)
Verði björgunarpakkinn felldur í þjóðaratkvæðagreiðslu verður Grikkland sennilega að yfirgefa myntbandalaf Evrópu og evrusamstarfið.Erfitt er að segja til um hvaða afleiðingar það hefði fyrir Grikkland.
Björgvin Guðmundsson
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.