Sunnudagur, 13. nóvember 2011
Má lífeyrir aldraðra ekki vera hærri en lágmarkslaun?
Það vakti nokkra furðu þegar velferðarráðherra kleip af hækkun lægstu bóta aldraðra og öryrkja 1.júní sl. Bæturnar áttu að hækka um 10,3% eins og lágmarkslaun en ráðherra hleypti aðeins í gegn 6,5% hækkun.Þetta var brot á yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar og samkomulagi við ASÍ við gerð kjarasamninga sl. vor.Samkvæmt því áttu bætur að hækka jafnmikið og laun.Engin skýring fékkst á þessu tiltæki ráðherra.
Mér dettur helst í hug að velferðarráðuneytið hafi ekki vilja hækka lægstu bætur langt upp fyrir lægstu laun.Einnig hefur ráðuneytið sennilega verið að hugsa um að halda atvinnuleysisbótum niðri en með því að klípa af bótum lífeyrisþega gat ráðuneytið einnig haldið niðri lægstu atvinnuleysisbótum.
Hér er velfeðarráðuneytið á villigötum. Ef verkalýðshreyfingin getur ekki tryggt verkafólki sómasamleg lágmarkslaun á ríkisstjórnin ekki að hjálpa henni til þess að halda þessum launum niðri með því að hafa bætur í lágmarki.Auk þess er rétt að benda á,að það er aðeins 1% vinnuaflsins með lágmarkslaun og þeir sem settir eru á lágmarkslaun eru aðeins á þeim launum fyrstu mánuðina í starfi.Það er því fölsun að miða við lágmarkslaun,sem innan við 1% vinnuafls er á.
Samtök aldraðra munu áfram berjast fyrir hækkun lægstu bóta og knýja slíka hækkun í gegn þrátt fyrir neikvæða afstöðu stjórnvalda.Það er ekki mál aldraðra að verkalýðshreyfingunni skuli ekki hafa tekist að hækka lágmarkslaun meira.En ég tel að vissulega kæmi til grein að alþingi mundi hækka lágmarkslaunin með lagasetningu. Slíkt hefur verið gert erlendis.
Björgvin Guðmundsson
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Þakka þér, Björgvin, fyrir að halda uppi vörnum fyrir okkur ellilífeyrisþega. Mér datt í hug í þessum samhengi að nokkrir "málsmetandi" sjálfstæðismenn, þar á meðal framkvæmdastjóri SA, hafa barist fyrir því að lífeyrissjóðir verði skattlagðir með fjármagnstekjuskatti. Nú er margt við þetta að athuga. Fyrir það fyrsta eru þessir fjármunir ekki eign sjóðanna, heldur þeirra sem í þá hafa greitt. Þar af leiðir, að séu þeir skattlagðir sérstaklega eftir að þeir koma til sjóðanna, verður skattbyrði sjóðfélaga orðin meiri og hærri en allra annarra skattgreiðenda í landinu. Vel má vera að einhverjum þykir full ástæða til að auka skattbyrði á þessum óskilgreinda hópi sem kallaður er fjármagnseigendur, en manni finnst nú burtséð frá öllu öðru að þetta sé brot á jafnræðisreglu. Annars finnst mér sífellt verða að verða alvarlegri sú staða, að Samtök atvinnulífsins skuli enn tilnefna helming stjórnarfólks í almennu lífeyrissjóðunum.
Þorkell Guðbrandsson (IP-tala skráð) 13.11.2011 kl. 18:58
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.