Sunnudagur, 7. október 2012
Árni Páll í framboði til formanns
Árni Páll Árnason,alþingismaður,hefur tilkynnt að hann sé í framboði til formanns í Samfylkingunni.Hann er fyrstur til þess að tilkynna framboð sitt og enn sem komið er sá eini, sem hefur tilkynnt framboð. Með þessu frumkvæði sýnir Árni Páll mikið áræði og leiðtogahæfileika,þar eð tilhneiging virðist hjá öðrum til þess að bíða og sjá hvernig þeim reiðir af í prófkjörum hver í sínu kjördæmi áður en þeir ákveða hvort þeir bjóða sig fram til formanns.
Árni hefur einnig lýst stefnu sinni í efnahagsmálum og varðandi ESB.Hann hefur þar talað tæpitungulaus og sagt,að það ríkti viss kyrrstaða í málefnum Íslands.Á meðan gjaldeyrishöft væru í gildi og óvissa í gjaldmiðilsmálum væri ekki unnt að tryggja nýjum kynslóðum sambærileg lífskjör og unga fólkið á kost á í grannlöndum okkar.Árni Páll vill ljúka aðildarferli að ESB og stefna að inngöngu í bandalagið og upptöku Evru.Hann vill afnema gjaldeyrishöftin sem fyrst.
Sjálfsagt munu einhverjir fleiri þingmenn Samfylkingarinnar bjóða sig fram til formanns. En Árni Páll hefur nú forskot.Ef aðrir hugsanlegir frambjóðendur hika of lengi getur verið,að Árni Páll verði sjálfkjörinn formaður.
Björgvin Guðmundsson
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.