Leiðréttir alþingi kjör aldraðra og öryrkja?

Björgvin Guðmundsson skrifar grein í Morgunblaðið í dag: Leiðréttir alþingi kjör aldraðra og öryrkja.Þar segir svo:
Frumvarp um afturköllun kjaraskerðingar aldraðra og öryrkja frá 1.júlí 2009 hefur verið tekið á dagskrá alþingis.Flutningsmenn frumvarpsins eru Margrét Tryggvadóttir, þingmaður Hreyfingarinnar, aðrir þingmenn þess flokks og Lilja Mósesdóttir.Margrét Tryggvadóttir fylgdi frumvarpinu úr hlaði 24.janúar sl.
Lífeyrissjóður skerði ekki lífeyri aldraðra og öryrkja frá TR
Frumvarpið kveður á um það, að kjaraskerðing aldraðra og öryrkja, sem tók gildi 1.júlí 2009 verði afturkölluð.Þar er um að ræða eftirfarandi: Hætt verði að telja greiðslur úr lífeyrissjóði með tekjum við útreikning á grunnlífeyri aldraðra og öryrkja frá almannatryggingum og útreikningur grunnlífeyris verði færður til fyrra horfs eins og hann var fyrir 1.júlí 2009.Frítekjumark vegna atvinnutekna aldraðra verði hækkað úr 40 þús. kr. á mánuði í 100 þús. kr. á mánuði, þ.e. eins og það var fyrir 1.júlí 2009. Frítekjumarkið hjá öldruðum verður þá hið sama og það er hjá öryrkjum en það var ekki lækkað 2009. Skerðingarhlutfall tekjutryggingar verði lækkað úr 45% í 38,25% og verði hið sama og það var fyrir 1.júlí 2009. Heimild lífeyrisþega til þess að velja á milli frítekjumarks og þess að telja 60% af atvinnutekjum til tekna verði komið á aftur.Afnumið verði að tekjutengja aldurstengda örorkuuppbót.
Kjaraskerðingin átti að vera tímabundin
Margrét Tryggvadóttir lagði áherslu á það í framsöguræðu sinn, að kjaraskerðingin frá 1.júlí 2009 hefði átt að vera tímabundin og var það tekið fram í athugsasemdum með frumvarpinu.Þáverandi félagsmálaráðherra hefði nefnt 3 ár í því sambandi.Sagði Margrét nauðsynlegt að afturkalla kjaraskerðinguna nú.Hún hefði verið mjög tilfinnanleg fyrir aldraða og öryrkja og verið sett á með mjög stuttum fyrirvara-Frumvarpinu var að lokinni fyrstu umræðu vísað til velferðarnefndar.-Ef til vill er mikilvægasta atriðið í afturköllun kjaraskerðingarinnar það, að þá fá þeir, sem misstu grunnlífeyrinn 2009, á miðju því ári, 34 þús. kr. hækkun lífeyris að öðru óbreyttu og miðað við, að þeir eigi rétt á fullum grunnlífeyri.
Er meirihluti í þinginu fyrir afturköllun?
Frumvarpið er flutt að lokunum viðræðum, sem fulltrúar kjaranefndar FEB áttu við formenn þingflokka allra flokka sl. haust og fram að áramótum en í þeim viðræðum var farið fram á það , að flutt yrði frumvarp um afturköllun kjaraskerðingarinnar frá 1.júlí 2009. Í viðræðunum lýsti Gunnar Bragi Sveinsson, formaður þingflokks Framsóknarflokksins, því yfir, að hann styddi allar kjarakröfur kjaranefndar FEB .Illugi Gunnarsson,formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins, kvaðst hlynntur fyrstu kjaraskröfunni, þe. afturköllun kjaraskerðingarinnar frá 2009. SES,Samband eldri sjálfstæðismanna, samþykkti á aðalfundi sínum 2012 að afturkalla ætti umrædda kjaraskerðingu. Guðmundur Steingrímsson, formaður Bjartrar framtíðar, var jákvæður gagnvart fyrstu kjarakröfu kjaranefndar FEB, þ.e. afturköllun kjaraskerðingar frá 2009.Með hliðsjón af góðum undurtektum þriggja formanna,Gunnars Braga,Illuga og Guðmundar og stuðningi Hreyfingarinnar eru góðar líkur á því að meirihluti sé fyrir frumvarpi um afturköllun kjaraskerðingar aldraðra og öryrkja frá 2009.Á það mun nú reyna í þinginu en kjaranefnd FEB hefur lagt á það áherslu, að alþingi yrði að taka kjaramál aldraðra í sínar hendur, þar eð ríkisstjórnin ætlaði ekki að afturkalla kjaraskerðingu aldraðra og öryrkja frá 2009.Þó var kjaraskerðingin tímabundin og síðustu forvöð fyrir ríkisstjórnina að afturkalla þessa kjaraskerðingu, þar eð kjörtímabilið er senn á enda og stutt í alþingiskosningar.
Áskorun á nýjan formann Samfylkingar
Þessi grein er skrifuð áður en úrslit í formannskjöri Samfylkingarinnar eru birt.En ég vil skora á nýjan formann Samfylkingarinnar að leysa kjaramál aldraðra og öryrkja.Mikilvægast í því efni er að afturkalla kjaraskerðinguna frá 1.júlí 2009. Nú þegar það liggur fyrir, að þingið er að fjalla um afturköllun kjaraskerðingarinnar frá 2009 skora ég á nýjan formann Samfylkingarinnar að beita sér fyrir því, að Samfylkingin og VG samþykki það þingmál,sem liggur fyrir um afturköllun eða flytji annað þingmál, sem hefði sömu áhrif.Einnig skora ég á nýjan formann að beita sér fyrir því, að kjaraskerðing ( kjaragliðnun) aldraðra og öryrkja á krepputímanum verði leiðrétt í áföngum.
Björgvin Guðmundsson

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband