Kjaraskerðing aldraðra og öryrkja aðeins afturkölluð að hluta til!

Björgvin Guðmundsson skrifar grein í Morgunblaðið í dag. Þar segir svo:

Ný ríkisstjórn Framsóknar og Sjálfstæðisflokks hefur tekið við völdum.Flokkar þeir, sem mynda stjórnina, gáfu mjög hástemmd loforð fyrir kosningar, fyrst og fremst varðandi skuldavanda heimilanna. Væri ef til vill réttnefni að kalla ríkisstjórnina loforðastjórnina.En stjórnarflokkarnir lofuðu fleiru en að leysa skuldavanda heimilanna. Báðir stjórnarflokkarnir lofuðu því ákveðið í aðdraganda kosninganna að afturkalla kjaraskerðingu aldraðra og öryrkja frá 2009.Framsóknarflokkurinn lofaði því einnig  í kosningabaráttunni að leiðrétta lífeyri aldraðra og öryrkja vegna kjaragliðnunar krepputímans, þ.e. vegna þess, að lægstu laun hækkuðu meira en lífeyrir aldraðra og öryrkja.Lífeyrir þessara hópa var í frosti mestallan krepputímann.Landsfundir beggja stjórnarflokkanna, Framsóknar og Sjálfstæðisflokks, samþykktu   fyrir kosningar, að afturkalla ætti kjaraskerðinguna frá 2009 og leiðrétta kjaragliðnunina, sem átt hafði sér stað sl. 4 ár. Ég var mjög ánægður að sjá þessar samþykktir landsfunda flokkanna og að heyra yfirlýsingar frambjóðenda um sama efni. Ég taldi víst, að mikið starf kjaranefndar FEB á alþingi sl. vetur hefði borið árangur en fulltrúar nefndarinnar áttu fundi með formönnum allra þingflokkanna, formönnum allra nýju flokkanna og  með þingflokki Sjálfstæðisflokksins. Einnig átti Landssamband eldri borgara fundi með þingflokkum. Ég var farinn að trúa því, að  staðið yrði við framangreindar  ályktanir flokkanna og yfirlýsingar frambjóðenda. Vonbrigðin urðu því mikil, þegar ég las stjórnarsáttmálann og sá, að aðeins átti að standa við lítinn hluta af kosningaloforðunum.Þar stendur að afturkalla eigi skerðingu á frítekjumarki vegna atvinnutekna og fjármagnstekna en ekkert er minnst á  aðra  og þungbærari kjaraskerðingu, sem aldraðir og öryrkjar urðu fyrir 1.júlí 2009. Og ekkert er heldur minnst á að leiðrétta lífeyrinn vegna kjaragliðnunar sl. 4 ár.En hver var þungbærasta kjaraskerðingin 1.júlí 2009? Hún var sú, að farið var að reikna greiðslur úr lífeyrissjóðum með tekjum við útreikning á grunnlífeyri og að skerðingarhlutfall tekjutryggingar var hækkað úr 38,35% í 45%. Þetta tvennt  verður einnig að leiðrétta  strax enda  því  lofað fyrir kosningar og á landsfundum beggja stjórnarflokkanna. Það  verður að efna öll þessi kosningaloforð strax í sumar eins og lofað var. Breytt aðferð við útreikning á grunnlífeyri skerti tekjur yfir 5000 ellilífeyrisþega og  19000 ellilífeyrisþegar urðu fyrir tekjuskerðingu vegna hækkunar á skerðingaarhlutfalli  tekjutryggingar.

 

Er verið að blekkja kjósendur? 

 

Það eru sjálfsagt einhverjar ástæður fyrir því, að  stjórnarflokkarnir ákváðu að  afturkalla aðeins hluta af kjaraskerðingunni frá 2009.Sennilega er ástæðan sú, að  flokkarnir hafa talið, að öll afturköllunin yrði of dýr fyrir ríkissjóð.En þá hefði átt að segja það fullum fetum.Það er alltaf verið að tala um,  að taka þurfi upp ný vinnubrögð í stjórnmálunum.Það er sagt, að stjórnmálamenn þurfi að koma hreint fram og segja kjósendum sannleikann. Þegar Bjarni Benediktsson talaði hreint út í sjónvarpi um innanflokksátökin í Sjálfstæðisflokknum, hlaut hann lof fyrir og aukið fylgi. En þegar  yfirlýsingar forsætisráðherra um kjaramál aldraðra og öryrkja eru skoðaðar kemur í ljós, að  sami feluleikur og áður er á ferðinni.Það er látið líta þannig út, að ríkisstjórnin ætli að afturkalla alla skerðinguna á kjörum aldraðra og öryrkja en ætlunin er að afturkalla aðeins lítinn hluta hennar og þann, sem kostar minnst fyrir ríkissjóð.Það er engu líkara en, að það sé vísvitandi verið að blekkja kjósendur.

Það verður fylgst vel með því, að stjórnarflokkarnir efni kosningaloforðin bæði um lausn á skuldavanda heimilanna en einnig varðandi kjör aldraðra og öryrkja.Eins og ég hefi getið um áður hafa lífeyrisþegar orðið að taka á sig yfir 17 milljarða kr. kjaraskerðingu vegna laganna frá  2009.Eðlilegast væri að aldraðir og öryrkjar fengju bætur fyrir allri þeirri kjaraskerðingu.En það eina, sem lífeyrisþegar geta gert sér vonir um er að fá lagaákvæðin um kjaraskerðinguna frá í 2009 felld úr gildi og málin færð til fyrra horfs.En þá er eftir að leiðrétta lífeyrinn vegna kjaragliðnunar krepputímans.Ef það væri gert í einum áfanga og lífeyrir aldraðra og öryrkja hækkaður um 20% til þess að ná þeirri kauphækkun, sem láglaunafólk hefur fengið sl. 4 ár  umfram hækkun á lífeyri,  þá mundi það kosta  aðra 17 milljarða ( 10 milljarða fyrir aldraða og 7 milljarða fyrir öryrkja).Þó væri engin afturvirkni þar innifalin. Leiðrétting þolir enga bið.Fyrrverandi ríkisstjórn hafði leiðréttingar af öldruðum og öryrkjum á þeim forsendum, að það ætti að fara að samþykkja ný lög um almannatryggingar. Nú er ljóst,að þau lög verða ekki samþykkt í bráð. Í stjórnarsáttmálanum segir,að endurmeta eigi frv. um almannatryggingar.Það getur því dregist lengi.Því miður virðist svo sem nýja ríkisstjórnin ætli að leika sama leikinn og fyrri ríkisstjórn í málefnum aldraðra og öryrkja.Ætla stjórnmálamenn aldrei að læra neitt?

 

Björgvin Guðmundsson

www.gudmundsson.net

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Eyjólfur G Svavarsson

Nei trúlega læra þeir aldrei neitt, Björgvin. Og það sem verra er, að við kjósendur ætlum heldur ekki að læra neitt,við kjósum þetta yfir okkur hvað eftir annað! Svo vil ég þakka þér fyrir að vekja athygli á þessum málum, en þú hefur verið duglegur að minna á okkur Lífeyrisþega, og veitir nú ekki af!!! Loforðastjórnin? því ekki það, en kannski aðeins of snemmt, sjáum til!!!!

Eyjólfur G Svavarsson, 11.6.2013 kl. 10:38

2 identicon

Þakka þér góðar umfjallanir og baráttu fyrir hönd aldraðra og sjúkra. Guð blessi þig.

Jón Rafn Jóhannson (IP-tala skráð) 12.6.2013 kl. 13:50

3 identicon

Ég man ekki til að því hafi verið lofað að leiðrétta afturvirkt þessa kjaraskerðingu. En launafólk t.d. eins og ég, hef misst vinnu og þurft að taka vinnu á miklu miklu lægri launum þrátt fyrir að lán og allur kostnaður hafi stórhækkað. Þannig gat ég lifað þokkalegu lífi á launum mínum fyrir hrun en það er ekki hægt lengur. Svona er nú það. Ég vildi líka gjarnan fá mínar skerðingar leiðréttar. En vonandi gerir þessi ríkisstjórn góða hluti fyrir alla þjóðina, það er það eina sem við getum nú, er að vonast eftir betri tíð. Ekki var vinstri velferðarstjórnin hliðholl venjulegum almenningi, heldur aðallega fjármagnseigendum, og þá helst erlendum fjármagnseigendum.

Margret S (IP-tala skráð) 12.6.2013 kl. 19:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband