Þriðjudagur, 9. júlí 2013
Er skýrslan um ÍLS byggð á sandi?
Fyrir nokkrum dögum birtist skýrsla um Íbúðalánasjóð frá rannsóknarnefnd,sem alþingi skipaði. Fjölmiðlar gleyptu skýrsluna hráa án þess að kafa nokkuð ofan í hana og hið sama gerðu flestir stjórnmálamenn, sem fjölluðu um hana.Íbúðalánasjóður hefur legið vel við höggi undanfarin misseri og margir hafa ráðist harkalega að honum.Hið sama gerir rannsóknarnefndin.Guðmundur Bjarnason fyrrverandi framkvæmdastjóri Íbúðalánasjóðs hefur kynnt sér vel efni skýrslunnar og sendir frá sér yfirlýsingu í gær.Hann segir,að skýrslan sé illa unnin og skýsluhöfundar hafi fallið í þann pytt að taka upp alls konar slúður,gróusögur og órökstuttar fullyrðingar um sjóðinn. Hann gagnrýnir sérstaklega hvernig talan um halla sjóðsins er fundin en þar virðist byggt á illa undirbúnum áætlunum og ágiskunum og alls ekki sýnt fram á það með fullnægjandi rökum,að raunverulegur halli sé eins mikill og skýrsluhöfundar halda fram.Núverandi stjórn Íbúðalánasjóðs hefur raunar sagt, að hallinn sé 64 milljarðar en ekki 270 milljarðar eins og skýrsluhöfundar segja.
Skýrsluhöfundar virðast ekki telja,að bankahrunið hafi átt neinn þátt í halla Íbúðalánasjóðs. En Íbúðalánasjóður átti miklar inneignir í bönkunum,þegar þeir hrundu.Hrunið átti stærsta þáttinn í miklum halla sjóðsins.Því er haldið fram,að ákvörðun Íbúðalánasjóðs í kjölfar kosninganna 2003 um að hækka lán sjóðsins í 90% hafi átt stóran þátt í húsnæðisbólunni hér og verðbólgunni og þar af leiðandi í efnahagsöngþveitinu.Vissulega áttu þessi ákvörðun Framsóknarflokksins og stjórnar Íbúðalánasjóððs þátt í slæmri þróun efnahagsmála en ákvörðun bankanna um að fara að veita 90-100% íbúðalán átti ef til vill stærri þátt í þessari slæmu þrónun. Alla vega voru þetta tiltölulega fá 90% lán sem Íbúðalánasjóður veitti. En það virðist vinsælt um þessar mundir að gera Íbúðalánasjóð alltaf að blóraböggli.Hafa verður einnig í huga að Íbúðalánasjóður er ríkisstofnun og allar meiriháttar ákvarðanir sjóðsins eru teknar af stjórnvöldum.
Björgvin Guðmundsson
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.