Ríkisstjórnin svíkur aldraða

Björgvin Guðmundsson skrifar grein í DV í dag.Greinin heitir: Ríkisstjórnin svíkur aldraða. Þar segir svo: 

Stærsta kosningaloforðið, sem núverandi stjórnarflokkar gáfu öldruðum og öryrkjum í síðustu þingkosningum,var að kjaragliðnunin, sem þessir hópar urðu fyrir á krepputímanum,yrði leiðrétt strax kæmust þeir til valda.Á landsfundi Sjálfstæðisflokksins fyrir kosningar 2013 var eftirfarandi samþykkt: Ellilífeyrir sé leiðréttur strax til samanburðar við þær hækkanir, sem orðið hafa á lægstu launum síðan í ársbyrjun 2009.Svipuð ályktun var samþykkt á flokksþingi Framsóknar.Þar var eftirfarandi samþykkt: Lífeyrir aldraðra og öryrkja verði hækkaður vegna kjaraskerðingar þeirra (og kjaragliðnunar) á krepputímanum.Með kjaragliðnun er átt við, að lífeyrir aldraðra og öryrkja hefur ekki hækkað samsvarandi og kaup láglaunafólks en tilskilið er í lögum, að svo skuli vera. 

Kjaragliðnunin ekki leiðrétt í fjárlagafrumvarpinu 

Þess var beðið með nokkurri eftirvæntingu, hvort fjárveiting til leiðréttingar á kjaragliðnun lífeyrisþega yrði í fjárlagafrumvarpinu, einkum þar sem formaður Sjálfstæðisflokksins var orðinn fjármálaráðherra og samþykkt landsfundar flokksins um leiðréttingu strax var afdráttarlaus.En það var ekki að finna eina krónu í frumvarpinu til leiðréttingar á umræddri kjaragliðnun.Það er því ljóst, að ríkisstjórnin ætlar að svíkja aldraða  um leiðréttingu á lífeyrinum. 

Lífeyrir þarf að hækka um 20% 

Hækka þarf lífeyrinn um a.m.k. 20% til þess að leiðrétta hann vegna kjaragliðnunarinnar.Kaup láglaunafólks hefur hækkað um 40% frá ársbyrjun 2009 en lífeyrir aldraðra ( þeirra,sem búa einir og hafa aðeins tekjur frá TR) hefur aðeins hækkað um 17% á sama tíma.Öryrkjabandalag Íslands telur að hækka þurfi lífeyri öryrkja meira en 20% til þess að leiðrétta að fullu vegna kjaraskerðingar krepputímans.Með því að hækka lífeyri um 20% nú væri aðeins verið að hækka hann í dag, mörgum árum síðar, til samræmis við hækkun,sem láglaunafólk hefur fengið  fyrir mörgum árum og mest á fyrri hluta krepputímans.Í því fælist hins vegar engin leiðrétting  fyrir liðinn tíma.Sumir frambjóðendur stjórnarflokkanna gáfu  mjög róttækar yfirlýsingar um að leiðrétta þyrfti kjör aldraðra og öryrkja til baka.

Aðeins hluti skerðinga afturkallaður

Ríkisstjórnin afturkallaði á sumarþinginu tvær skerðingar á kjörum lífeyrisþega: Frítekjumark vegna atvinnutekna var hækkað á ný úr 40 þúsund á mánuði í 120 þúsund á mánuði og þeir,sem misstu grunnlífeyri sinn  árið 2009 vegna greiðslna úr lífeyrissjóði, fengu hann á ný.Þessi afturköllun var góð svo langt, sem hún náði en hún var því marki brennd, að hún kom aðeins þeim lífeyrisþegum til góða,sem höfðu tiltölulega góð kjör svo sem góðan lífeyrissjóð.Ekkert var gert fyrir þá lífeyrisþega, sem illa voru staddir.Til dæmis afturkallaði sumarþingið ekki kjaraskerðingu þeirra,sem urðu fyrir barðinu á því, að skerðingarhlutfall tekjutryggingar var hækkað 2009 úr 38,35% í 45%.Við það urðu 28000 lífeyrisþegar fyrir kjaraskerðingu.Fyrrverandi ríkisstjórn tekur hins vegar ómakið af núverandi stjórn í því efni: Lögin um skerðingarhlutfall tekjutryggingar falla sjálfvirkt úr gildi um næstu áramót.Þau voru tímabundin. 

Landssamband eldri borgara og Félag eldri borgara í Reykjavík hafa ítrekað ályktað að leiðrétta verði lífeyrinn vegna kjaragliðnunar krepputímans.Þess er krafist, að staðið verði við kosningaloforðið í því efni og að það verði gert strax eins og lofað var fyrir kosningar.Það hefur verið níðst á kjörum lífeyrisþega.Nú er komið að því að leiðrétta kjörin. 

 

Björgvin Guðmundsson

formaður kjaranefndar Félags eldri borgara 

í Reykjavík.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband