Þriðjudagur, 5. nóvember 2013
Landspítalinn verður að fá 5 milljarða til viðbótar næsta ár.-Ráðherra stöðvar byggingu hjúkrunarheimilis!
Kjaranefnd Félags eldri borgara í Reykjavik samþykkti eftirfarandi ályktun 1.nóvember sl.:
Kjaranefnd Félags eldri borgara í Reykjavik hefur þungar áhyggjur af fjárskorti Landspítalans.Ljóst er, að í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2014 er alltof naumt skammtað til
spítalans.Kjaranefndin undrast, að 600 millj. kr. framlag til tækjakaupa skuli hafa verið strikað út og skorar á ríkisstjórnina að setja inn í frumvarpið myndarlegt framlag til tækjakaupa á Landspítalanum enda hættuástand að skapast þar vegna slæms ástands tækja á spítalanum.Þá vantar alveg framlag til kjarabóta starfsmanna Landspítalans en mikill órói er í læknum,hjúkrunarfólki og öðrum starfsmönnum spítalans vegna óánægju með launakjörin.Ljóst er einnig, að spítalinn er undirmannaður og að það þolir ekki bið að hefja endurreisn spítalans.Það vantar talsvert viðbótarframlag til Landspítalans, sennilega 5 milljarða á næsta ári, hið minnsta.
Aðrar heilbrigðisstofnanir landsins búa einnig við miklar þrengingar vegna mikils niðurskurðar undanfarin ár af völdum bankahrunsins.Hefja verður uppbyggingu í öllu heilbrigðiskerfi landsmanna.
Kjaranefndin mótmælir því harðlega að heilbrigðisráðherra skuli hafa frestað byggingu 88 rúma hjúkrunarheimilis við Sléttuveg en fyrrverandi velferðarráðherra og Reykjavíkurborg höfðu gert samkomulag um byggingu þess heimilis.Þessi ákvörðun ráðherra kemur sér mjög illa, þar eð eð mikill skortur er á hjúkrunarrýmum í Reykjavík.Biðlistar þeirra,sem bíða eftir rými á hjúkrunarheimilum hafa verið að lengjast. Heimahjúkrun og félagsleg heimaþjónusta í Reykjavík eru illa í stakk búin til þess að taka við auknu álagi við umönnun eldri borgara og annarra sjúklinga heima.Heimahjúkrunin er undirmönnuð og hefur ekki fengið neinar auknar fjárveitingar enda þótt mikil þörf sé á því.
Björgvin Guðmundsson
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 05:05 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.