Föstudagur, 22. nóvember 2013
Hækka verður lægstu laun myndarlega!
Samtök atvinnulífsins hamast nú við að reyna að telja verkafólki trú um,að það sé því fyrir bestu að fá litlar sem engar kauphækkanir í næstu kjarasamningum en samningar renna út um næstu mánaðamót. SA segir,að verkalýðssamtökin á hinum Norðurlöndunum hafi samið um mjög litlar grunnkaupshækkanir en samt náð meiri kaupmáttaraukningu en hér hafi tekist. SA sleppir því vísvitandi,að geta um óðaverðbólguna,sem geisað hefur hér á landi og einnig sleppir SA því að geta um óstöðugt gengi og ónýtan gjaldmiðil,sem við búum við.Mikil verðbólga hér og ónýt króna skekkja allan samanburð við hin Norðurlöndin í launamálum.
Lágmarkslaun hér á landi eru nú 191 þús. kr. á mánuði.Þau laun hækka upp í rúmar 200 þús. kr. á mánuði á nokkrum árum.Þessi laun vill SA hækka um 2% eða um 4 þús. kr. á mánuði eða tæplega það.Framkvæmdastjórar samtaka atvinnurekenda eru hins vegar sjálfir með 1-2 milljónir króna á mánuði.Og framkvæmdastjórar samtaka verkalýðshreyfingarinnar eru heldur ekki illa haldnir.
Lægstu laun verkafólks hér á landi eru til skammar. Þau eru blettur á íslensku þjóðfélagi. Það verður að þvo þann blett af og greiða ófaglærðu verkafólki mannsæmandi laun.
Björgvin Guðmundsson
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 08:41 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.