Laugardagur, 23. nóvember 2013
Kjör aldraðra og öryrkja eru til skammar
Björgvin Guðmundsson skrifar greín í DV í dag: Kjör aldraðra og öryrkja eru til skammar.Þar segir svo:Einhver mesta kjarabót,sem unnt væri að færa eldri borgurum, er hækkun skattleysismarkanna. Samkvæmt fjárlagafrumvarpinu hækka skattleysismörkin um 4,3% eða úr 129 þús. á mánuði í 135.330 kr. Það er alltof lítil hækkun.Skattleysismörkin þyrftu að hækka í a.m.k 170 þús kr. á mánuði.Það er baráttumál eldri borgara.
Ríkisstjórnin fór ódýrustu leiðina
Breytingar á almannatryggingalögum, sem gerðar voru á sumarþinginu, kosta 1,7 milljarð kr. á næsta ári ( endurreistur grunnlífeyrir og hækkun frítekjumarks vegna atvinnutekna.)
Um næstu áramót renna út lög fyrri ríkisstjórnar um hækkað skerðingarhlutfall tekjutryggingar ( úr 38,35% í 45 %).Skerðingarhlutfallið verður þá á ný 38,35%. Það kostar 2,6 milljarða næsta ár.
Samkomulag sem gert var í tíð fyrri ríkisstjórnar milli lífeyrissjóðanna og ríkisstjórnarinnar vegna Tryggingastofnunar um ráðstafanir gegn víxlverkunum tryggingabóta ellilífeyrisþega TR og bóta aldraðra úr lífeyrissjóðum er framlengt og framlengist því hækkun á frítekjumarki vegna greiðslna úr lífeyrissjóði.Kostar 650 millj.kr. næsta ár.
Kjaraskerðing aldraðra og öryrkja a.m.k 34 milljarðar sl. 4 ár!
Sú leiðrétting á kjörum aldraðra og öryrkja,sem ákveðin var á sumarþinginu, ásamt breytingu á skerðingarhlutfalli tekjutryggingar,sem tekur gildi um áramót, kostar aðeins lítið brot af þeirri kjaraskerðingu, sem aldraðir og öryrkjar hafa orðið fyrir sl. 4 ár.Kjaraskerðing aldraðra og öryrkja vegna laganna frá 1.júlí 2009 nemur á þessu ári 17,6 millljörðum kr.Þá er ótalin kjaraskerðingin vegna kjaragliðnunar sl. 4 ár.Hækka þarf lífeyri um 20% til þess að jafna metin vegna þessarar gliðnunar.Sú hækkun kostar aðra eins upphæð eða rúma 17 milljarða kr. og er þá ekkert leiðrétt til baka.Samtals nemur kjaraskerðingin því a.m.k. 34 milljörðum kr.
Skila aðeins 1,7 milljörðum af 34 milljörðum
Fjárlagafrumvarpið er komið fram og þar sést hvað ríkisstjórnin ætlar að gera í málefnum aldraðra og öryrkja.Það er rýrt í roðinu. Það á ekki að efna nema lítinn hluta allra þeirra kosningaloforða,sem stjórnarflokkarnir gáfu öldruðum og öryrkjum.Ríkisstjórnin hefur ákveðið að skila lífeyrisþegum 1,7 milljörðum af öllum þeim milljörðum,sem stjórnvöld hafa haft af öldruðum og öryrkjum sl. 4 ár. vegna laganna frá 2009. Það er nú allur rausnarskapurinn. En auk þess svíkur ríkisstjórnin stærsta kosningaloforðið við þessa hópa, þ.e. að leiðrétta kjaragliðnunina vegna sl. 4 ra ára. Framsókn og Sjálfstæðisflokkur lofuðu fyrir kosningar að framkvæma þessa leiðréttingu, kæmust þessir flokkar til valda. En ríkisstjórnin svíkur það loforð nú án þess að blikna.
Kjör aldraðra og öryrkja til skammar
Einhleypur ellilífeyrisþegi hefur í dag aðeins 180 þús. kr.á mánuði eftir skatt,miðað við, að hann hafi aðeins tekjur frá TR.Ef sá hinn sami gengur í hjónaband, fær hann aðeins 162.418 kr. eftir skatt.Þetta er alger hungurlús og enginn leið að lifa mannsæmandi lífi af þessum smánarbótum.Ríkisstjórnin ætti að sjá sóma sinn í því að hækka þessar bætur myndarlega.Það gæti hún gert með því að efna kosningaloforðið um 20% hækkun lífeyris til þess að leiðrétta lífeyrinn vegna kjaragliðnunar sl. 4 ár.
Björgvin Guðmundsson
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:06 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.