Föstudagur, 29. nóvember 2013
Landspítalinn stendur sig þrátt fyrir mikinn niðurskurð
Björgvin Guðmundsson skrifar grein í DV í dag um Landspítalann. Þar segir svo:
Ég varð fyrir því óláni fyrir skömmu að detta og lærbrotna.Ég hringdi strax á Læknavaktina og bað um lækni. Von bráðar var læknir kominn til mín.Læknirinn skoðaði fótinn og með því að snúa fætinum nokkuð sá hann strax, að líklegt var, að um brot á lærlegg væri að ræða.Læknirinn ákvað því strax að senda mig á bráðavakt Landspítalans til rannsóknar og meðferðar.Þetta voru fumlaus vinnubrögð.Áður en varði var ég kominn á bráðavakt Landsspítalans í Fossvogi.Þar tók á móti mér þjálfað hjúkrunarfólk, læknar og hjúkrunarfræðingar.Súrefnismettun,blóðþrýstingur og sótthiti var strax athugað en síðan var ég sendur í röngtenmynd til þess að athuga hvort um brot væri að ræða. Allt gekk þetta fljótt og vel og ég varð ekki var við slæmar afleiðingar niðurskurðar( sparnaðar), a.m.k. ekki í þessari deild spítalans.Mér fannst öll þjónusta til fyrirmyndar. Læknar bráðavaktarinnar reyndu að lesa úr myndinni en þeim fannst það eitthvað ógreinilegt, hvort um brot væri að ræða eða ekki.Var því ákveðið að bíða með endanlegan úrskurð um myndina þar til morguninn eftir, þegar sérfræðingar í röngtenmyndum kæmu til vinnu.Ákveðið var því, að ég mundi sofa á spítalanum um nóttina.Mér þótti það slæmt, þar eð kona mín var veik heima en synir okkar tóku að sér að hugsa um hana.
Reyndist vera beinbrot
Morguninn eftir kom í ljós, að um beinbrot var að ræða og því nauðsynlegt að skera upp og gera að brotinu. Ég var lagður inn á spítalann 6.nóvember en 8 nóvember var aðgerðin gerð á fætinum.Gekk hún mjög vel.Settur var nagli í beinið til styrktar.Ég var mænudeifður meðan á aðgerðinni stóð og fann ekki fyrir neinu.Ég var á heila-tauga- og bæklunarskurðlækningadeild spítalans og þar tók á móti mér frábært hjúkrunarfólk.Er aðdáunarvert hve þjónusta öll er góð á spítalanum þrátt fyrir gífurlegan niðurskurð undanfarin ár.Eftir aðgerðina lá ég í 6 daga á Landspítalanum.Ég fékk göngugrind og fór strax að ganga með aðstoð hennar.Sjúkraþjálfarar komu og aðstoðuðu mig við að ganga með hækjum og göngugrind og iðjuþjálfar komu einnig og leiðbeindu um notkun hjálpartækja á spítalanum og heima.
Reynt að tryggja áframhaldandi þjónustu
Hjúkrunarfólkið á Landsspítalanum lætur ekki við það sitja að veita góða þjónustu á spítalanum sjálfum, heldur reynir það að tryggja áframhaldandi góða þjónustu við sjúklingana eftir að heim er komið.Þegar heimferðardagur nálgaðist hjá mér,14.nóvember sl., snéri Margrét Hallgrímsdóttir, hjúkrunarfræðingur á Landspítalanum, sér til heimahjúkrunar í Reykjavík og óskaði eftir, að ég nyti heimahjúkrunar eftir að heim væri komið.Velferð sjúklinganna er í fyrsta sæti hjá þessu frábæra hjúkrunarfólki.
Sama góða reynslan og áður
Þetta er í annað sinn á langri ævi,sem ég þarf að leita til Landspítalans. Hið fyrra sinnið var fyrir tæpum 2 árum,er ég fékk krabbamein í maga.Hálfur maginn var þá tekinn og þannig tókst að fjarlægja meinið.Veikindi mín voru mikið alvarlegri þá en nú en reynsla mín af spítalanum,læknum og hjúkrunarfólki var hin sama nú og áður: Mjög góð. Þjónustan var frábær.Ég færi Landsspítalanum og starfsfólki öllu bestu þakkir fyrir frábæra þjónustu.
Björgvin Guðmundsson
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:07 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.