Sunnudagur, 1. desember 2013
Kostnaði við stóra loforðið velt yfir á ríkið!
Jæja nú er loksins búið að upplýsa hvar ríkisstjórnin ætlar að fá peninga til þess að fjármagna stóra loforð Framsóknar.Það var búið að segja,að þessu yrði ekki velt yfir á ríkið eða skattgreiðendur en þegar hulunni var lyft af stóra loforðinu í Hörpu í gær var það samt raunin: Ríkið,þ.e. skattgreiðendur eiga að borga í byrjun í trausti þess að peningar náist af þrotabúum föllnu bankanna einhvern tímann seinna.Upphæðin hefur stöðugt skroppið saman og er nú komin í 80 milljarða kr. í stað 300 milljarða,sem lofað var í kosningabaráttunni.Stærsta loforð allra tíma og í öllum heiminum er orðið miklu lægra en það sem ríkisstjórn Samfylkingar og VG lagði fram til þess að leysa skuldavanda heimilanna. Það eru aðeins 80 milljarðar,sem ganga eiga til beinnar niðurfærslu verðtryggðra húsnæðisskulda og það á ekki að gerast strax eins og lofað var heldur á 4 árum.Auk þess á að leyfa fólki að taka út séreignalífeyrissparnað sinn og nota til þess að lækka húsnæðisskuldir sínar.Gallinn er aðeins sá,að mjög margir eru búnir að taka þennan sparnað út og eyða honum og aðrir hafa svo lág laun,að þeir hafa ekki treyst sér til þess að taka þátt í slíkum sparnaði.
Það hefur dregið út kokhreysti í sambandi við það að ná peningum af þrotabúum föllnu bankanna.En þó er talað um að greiða eigi ríkinu til baka þegar og ef þeir peningar nást.Það er alls óvíst að það takist.Hins vegar segist ríkisstjórnin ætla að hækka bankaskattinn og þar á meðal á þrotabúin.En hvort það tekst að skattleggja þrotabúin er í algerri óvissu, þar eð enginn veit hvers virði þrotabúin eru.Slíkri skattlagningu hefur þegar verið mótmælt og hótað málsókn.
Björgvin Guðmundsson
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 07:33 | Facebook
Athugasemdir
Þar sem mikill auður kemur saman við mikil völd er hætta fyrir lýðræðið. Við höfum sopið seyðið af þessu á undanförnum mánuðum.
Svanur Kristjánsson prófessor við HÍ telur (á málþingi Landverndar í tilefni 80 ára afmælis Harðar Bergmann) að aldrei hafi lýðræðið náð jafn langt og á ríkisstjórnarárum Jóhönnu Sigurðardóttur. Bendir hann t.d. hvernig frumkvæðið að endurskoðun stjórnarskrárinnar var tekið úr höndum stjórnmnálamanna og fært í hendur þjóðarinnar. Kosningin til stjórnlagaráðs var kærð og dæmd ólögleg af Hæstarétti sem er sennilega sá íhaldsamasti í gjörvallri Evrópu end hefur Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn dómstólana meira og minna í vasanum. Nú er búið að fela nefnd að fjalla um þetta mál og formaður nefndarinnar fremur íhaldssamur lögfræðiprófessor emertiti sem helst engu vill breyta!
Eg held að við hefðum átt skilið að fá betri ríkisstjórn en þessa. Vænti eg einskis af henni en dugleg hefur hún verið að hygla þeim sem breið hafa bökin og sankað hafa sér meiri auð en aðrir.
Guðjón Sigþór Jensson, 1.12.2013 kl. 14:16
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.