Lífeyrir aldraðra frá TR dugar ekki fyrir framfærslu!

 

 

 

 

 

 

 

 

Björgvin Guðmundsson skrifar grein í DV í dag um kjaramál aldraðra. Þar segir svo:

Hver eru kjör eldri borgara í dag? Eru þau eitthvað til þess að hrópa húrra fyrir? Nei,svo sannarlega ekki. Kjörin eru smánarleg.Einhleypur ellilífeyrisþegi fær 180 þús. kr. á mánuði eftir skatt frá almannatryggingum og  eldri borgari, sem er í hjónabandi eða í sambúð, fær 162 þús. kr. á mánuði  eftir skatt frá almannatryggingum, miðað við að eingöngu sé um að ræða tekjur frá Tryggingastofnun (Skv.reiknivél TR 15.jan.2014).Það er ekki unnt að lifa mannsæmandi lífi af þessum lágu fjárhæðum.Af þessum lífeyri þarf að greiða húsnæðiskostnað, sem hefur aukist  mikið.Leiga fyrir litla íbúð er komin í 120-130 þús. kr. á mánuði. Þegar hún hefur verið greidd er lítið eftir fyrir mat, klæðum,síma,lyfjakostnaði,lækniskostnaði og öllum öðrum kostnaði.Það er  ókleift að kaupa og reka bíl af þessum lága lífeyri.Lyfjakostnaður hefur aukist mikið  og er nú rukkað fyrir lyf, sem áður voru frí svo sem sykursýkislyf og snara þarf út svo háum fjárhæðum fyrir lyfjum áður en niðurgreiðsla tekur gildi, að erfitt er fyrir marga aldraða og öryrkja að kljúfa það.
 
Greiðslur úr lífeyrisssjóði gerðar “upptækar”!
 
Þeir, sem fá eitthvað úr lífeyrissjóði, eru margir hverjir ekkert betur settir en hinir, sem aldrei hafa greitt í lífeyrissjóð.Eldri borgari, sem fær 70 þús. kr. á mánuði úr lífeyrissjóði, sætir 70 þús. kr. skerðingu á mánuði hjá almannatryggingum og fær því ekkert meira í heildarlífeyri en sá,sem aldrei hefur greitt í lífeyrissjóð. Þetta er eins og eignaupptaka .Það er eins og ríkið sé að hrifsa til sín allan lífeyri eldri borgarans, þ.e. lífeyri,sem hann hefur safnað alla starfsævi sína.Menn spyrja: Er þetta löglegt? Stenst þetta stjórnarskrána? Er þetta ekki hrein og klár eignaupptaka? Fróðlegt væri að láta reyna á það fyrir dómstólum.En ríkisvaldið ætti að sjá sóma sinn í því að leiðrétta þetta ranglæti.Það þarf að afnema þessar skerðingar, þannig að eftirlaunamenn haldi þeim lífeyri,sem þeir hafa lagt fyrir meðan þeir voru starfandi.Það var meiningin, þegar lífeyrissjóðirnir voru stofnaðir.
 
Hækka þarf lífeyrinn til samræmis við neyslukönnun  Hagstofunnar
 
Hvað þarf eldri borgari mikið sér til framfærslu til þess að geta lifað sómasamlegu lífi? Hagstofan hefur ekki kannað framfærsluþörf aldraðra.En hún hefur kannað neyslukostnað, meðaltalsneyslu og birtir árlega í desembermánuði niðurstöðu þeirrar könnunar. Samkvæmt síðustu neyslukönnun Hagstofunnar er meðaltalsneysla  einhleypinga í landinu  320 þús. kr. á mánuði ( Leiðrétt fyrir hækkun neysluverðs frá því könnuniun var gerð). Inni í þeirri tölu eru engir skattar og heldur ekki afborganir og vextir eða fjárfesting. Ýmsa fleiri liði vantar.Ég tel, að þessi könnun eigi við eldri borgara eins og aðra í þjóðfélaginu.Sumir liðir eru meira að segja lægri í þessari könnun en nemur meðaltalsútgjöldum eldri borgara til þeirra.Það á t.d. við um lyfjakostnað og lækniskostnað.Miðað við neyslukönnun Hagstofunnar vantar einhleypan ellilífeyrisþega 140 þús. kr. á mánuði i lífeyri frá almannatryggingum en lífeyrir einhleypra ellilífeyrisþega frá TR er nú 180 þús. á mánuði eftir skatt.Hér er um sambærilegar tölur að ræða, þar eð engir skattar eru inni í tölunum.Félag eldri borgara í Reykjavík hefur samþykkt, að við ákvörðun lífeyris frá almannatryggingum eigi að miða við neyslukönnun Hagstofunnar.Við leiðréttingu lífeyris aldraðra frá TR til samræmis við neyslukönnun Hagstofunnar mætti áfangaskipta leiðréttingunni,  t.d. í 2 –3 áfanga.En hefja verður leiðréttingaferilinn strax.Það þarf að leiðrétta lífeyri aldraðra og öryrkja strax myndarlega á þessu ári og síðan halda því áfram næstu 2 árin þar til neyslukönnun Hagstofunnar er náð.
 
Björgvin Guðmundsson
formaður kjaranefndar Félags eldri borgara í Rvk.
 
 
 
 
 
 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband