Þriðjudagur, 4. febrúar 2014
Mannréttindi brotin á öldruðum!
Brýna nauðsyn ber til þess að stofna embætti umboðsmanns aldraðra.Verkefni þess embættis á að vera að gæta hagsmuna aldraðra í hvívetna.Lög hafa ítrekað verið brotin á eldri borgurum og stjórnvöld hafa hvað eftir annað hundsað réttmætar óskir aldraðra. Mannréttindi hafa verið brotin á öldruðum. Það er því ærin ástæða til þess að stofna embætti umboðsmanns aldraðra.Landssamband eldri borgara og Félag eldri borgara í Reykjavík berjast fyrir því, að aldraðir fái sinn umboðsmann.
Lífeyrir aldraðra var frystur
Í byrjun krepputímans gerðu stjórnvöld sér lítið fyrir og frystu lífeyri aldraðra .Það ástand stóð í 2 ár. Á því tímabili hækkuðu lægstu laun um 16% en lífeyrir hækkaði ekki um eina krónu. Síðan hefur lífeyrir hækkað miklu minna en lágmarkslaun.Á tímabilinu 2009-2013 hækkuðu lágmarkslaun um 40% en á sama tíma hækkaði lífeyrir aðeins um 17%. Það er óskiljanlegt hvers vegna lífeyrir aldraðra var frystur.Það er rétt eins og eldri borgarar hafi átt að koma Íslandi upp úr kreppunni! Lífeyrir öryrkja var einnig frystur. Aldraðir og öryrkjar voru varnarlausir gagnvart þessari miklu kjaraskerðingu.Mótmæli höfðu engin áhrif.Þau lentu ofan í skúffum ráðherranna.Hér hefði umboðsmaður aldraðra haft mikið verk að vinna.Hann hefði getað krafist þess, að lífeyrir aldraðra hækkaði í takt við hækkun lægstu launa og getað bent á lágaákvæði,sem kveða á um, að við ákvörðun lífeyris eigi að taka mið af launum og lífeyrir aldrei að hækka minna en nemur hækkun vísitölu neysluverðs.
Ráðherrar fengu launaleiðréttingu en aldraðir ekki!
Í lögum um málefni aldraðra segir, að aldraðir eigi að njóta jafnréttis á við aðra þegna þjóðfélagsins.Þetta lagaákvæði hefur verið þverbrotið á öldruðum.Margar stéttir voru látnar taka á sig tímabundnar byrðar vegna bankahrunsins og kreppunnar; þar á meðal ráðherrar,emættismenn og alþingismenn.Þessi hópur fékk snemma leiðréttingu á tímabundinni kaupskerðingu og fékk laun sín leiðrétt til baka. Á sama tíma var öldruðum neitað um leiðréttingu á sínum lífeyri.Þetta er greinileg og augljós mismunun og brot á framangreindum lögum um málefni aldraðra.Hér hefði verið verkefni fyrir umboðsmann aldraðra. Í lögum og stjórnarskrá segir, að þegnar þjóðfélagsins eigi rétt á aðstoð vegna sjúkleika og elli og eigi að fá vist á sjúkrahúsi, þegar þörf krefur.Misjafnlega hefur gengið að uppfylla þessi ákvæði. Þá hafa mannréttindi verið brotin á eldri borgurum á hjúkrunarheimilum. Lífeyririnn hefur verið rifinn af þeim við vistun á hjúkrunarheimili og tekin greiðsla fyrir sjúkravistina af þessum lífeyri en eldri borgurunum síðan skömmtuð hungurlús í vasapeninga.Þessar aðfarir eru klárt mannréttindabrot og þarna er sjálfsákvörðunarréttur eldri borgara fótum troðinn.Þetta fyrirkomulag tíðkast hvergi á Norðurlöndunum nema á Íslandi.Á hinum Norðurlöndunum fá eldri borgarar allan sinn lífeyri í hendurnar og borga síðan sjálfir af honum fyrir vist á hjúkrunarheimili.
Kjaraskerðingin 2009 óheimil
Það eru næg verkefni fyrir umboðsmann aldraðra.Ísland er aðili að alþjóðlegum mannréttindasáttmálum.Samkvæmt þeim mega stjórnvöld ekki skerða kjör eldri borgara eða færa þau til baka eins og gert var 2009 þó efnahagsáföll verði nema búið sé áður að leita allra annarra leiða .Það var ekki gert 2009.Það var ekki leitað annarra leiða.Þess vegna var kjaraskerðingin 2009 óheimil og brot á alþjóðlegum mannréttindasáttmálum, sem við erum aðilar að.Umboðsmaður aldraðra hefði því væntanlega getað stöðvað kjaraskerðinguna 2009.
Björgvin Guðmundsson
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 08:07 | Facebook
Athugasemdir
Kæri pabbi! Til hamingju með greininina þína í DV í dag, sem er mjög sterk grein. Ég tek heilshugar undir orð þín, að brýna nauðsyn ber til þess að stofna embætti umboðsmanns aldraðra, sem gæti hagsmuna aldraðra í hvívetna.
Kær kveðja, Björgvin
Björgvin Björgvinsson, 4.2.2014 kl. 18:03
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.