Þriðjudagur, 11. febrúar 2014
Stærsta loforðið við aldraða óuppfyllt!
Björgvin Guðmundsson skrifar grein í DV í dag.Greinin heitir: Stærsta loforðið við aldraða óuppfyllt.Þar segir svo:
Hvernig hefur ríkisstjórnin staðið sig í málefnum aldraðra og öryrkja? Hefur hún staðið við kosningaloforðin, sem hún gaf lífeyrisþegum? Þessum spurningum verður svarað í þessari grein. Stutta svarið er þetta: Ríkisstjórnin hefur staðið við hluta af kosningaloforðunum, sem stjórnarflokkarnir gáfu öldruðum og öryrkjum. En hún hefur ekki uppfyllt stærsta kosningaloforðið við lífeyrisþega, þ.e. loforðið um að bæta lífeyrisþegum að fullu og strax kjaraskerðinguna og kjaragliðnunina, sem aldraðir og öryrkjar urðu fyrir sl. 4-5 ár, þ.e. á krepputímanum.Til þess að efna þetta loforð þarf að hækka lífeyri um 20% strax en það þýðir 43.700 kr, hækkun á mánuði á lífeyri frá TR hjá einhleypum eldri borgara, sem einungis hefur tekjur frá almannatryggingum.Það yrði mikil kjarabót fyrir lífeyrisþega að fá þessa hækkun.Bæði Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur samþykktu á flokksþingum sínum, að leiðrétta ætti lífeyri aldraðra og öryrkja vegna umræddrar kjaragliðnunar og að það yrði gert, ef þessir flokkar kæmust til valda. Nú er komið að því, að þessir flokkar, sem sitja í ríkisstjórn verði að uppfylla þetta kosningaloforð.Það þolir enga bið.Aldraðir geta ekki beðið.
Ódýrustu málin framkvæmd
En hvað hefur ríkisstjórnin gert í málefnum aldraðra og öryrkja? Hún hefur gert þetta: Á sumarþinginu sl. sumar lagði ríkisstjórnin fram frumvarp um að afturkalla skerðingu á frítekjumarki vegna atvinnutekna frá 1.júlí 2009.Og um að hætta að reikna greiðslur úr lífeyrissjóði með tekjum við útreikniung á grunnlífeyri en það hafði einnig verið ákveðið í júlí 2009. Margir eldri borgarar misstu grunnlífeyri sinn við þá ráðstöfun.Það er grundvallarstefnumál eldri borgara, að þeir, sem fengið hafa grunnlífeyri haldi honum en hann sé ekki tekinn af þeim aftur. Þess vegna var endurreisn grunnlífeyrisins mjög mikilvægt mál að mati eldri borgara.Þessi tvö mál,sem ríkisstjórnin framkvæmdi sumarið 2013, voru mjög mikilvæg en það vantaði þriðja málið þ.e. afturköllun á skerðingu tekjutryggingar ( hækkun skerðingarhlutfalls úr 38,35% í 45%) .Sú skerðing var einnig lögfest í júlí 2009 og olli 19000 eldri borgurum kjaraskerðingu.Hvers vegna tók ríkisstjórnin ekki þetta mál með á sumarþinginu 2013? Það voru tvær ástæður fyrir því: 1) Þetta var mjög kostnaðarsamt mál. 2) Lögin um skerðingu tekjutryggingar frá 2009 voru tímabundin og áttu að renna út í árslok 2013. Af þessum sökum fengu aðeins þeir betur settu meðal lífeyrisþega kjarabætur sumarið 2013 en hinir verr settu fengu engar kjarabætur þá þegar.Þeir verr settu urðu að bíða til áramóta. En þegar kosningaloforðin voru gefin öldruðum og öryrkjum, voru engir fyrirvarar settir fram.Því var lofað, að þessi loforð yrðu efnd strax, ef stjórnarflokkarnir kæmust til valda.Ríkisstjórnin valdi ódýrustu leiðina.Það kostaði ríkisstjóð litla fjármuni að afturkalla skerðingu frítekjumarks vegna atvinnutekna og að leiðrétta útreikning grunllífeyris.-Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar segir einnig, að afturkalla eigi skerðingu á frítekjumarki vegna fjármagnstekna. Það var ekki gert á sumarþinginu og það hefur ekki verið gert ennþá.
Endurskoðun almannatrygginga strand!
Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur lagði fram frumvarp um endurskoðun almannatrygginga nokkru fyrir þinglok fyrir síðustu alþingiskosningar.Þar var m.a. gert ráð fyrir, að dregið yrði verulega úr skerðingu lífeyris aldraðra frá almannatryggingum vegna greiðslna úr lífeyrissjóði.Mikillar óánægju gætir í dag meðal lífeyrisþega vegna þessara skerðinga.Lífeyrisþegum,sem greitt hafa í lífeyrissjóð, finnst ósanngjarnt, að í mörgum tilvikum fái þeir ekkert meiri lífeyri en þeir, sem aldrei hafa greitt í lífeyrissjóð. Frumvarpið náði ekki afgreiðslu fyrir alþingiskosningar. En fulltrúar núverandi stjórnarflokka gáfu til kynna, að endurskoðun almannatrygginga hefði hljómgrunn hjá þeim og yrði afgreidd á nýju þingi. Ekkert bólar þó á því.Talsverður kostnaður fylgir endurskoðun almannatrygginga.Af þeim sökum hefi ég enga trú á, að núverandi stjórnarflokkar framkvæmi hana .Það er mjög slæmt, þar eð það er réttlætismál að draga verulega úr skerðingum.Óánægja magnast ört vegna mikilla skerðinga á lífeyri eldri borgara hjá Tryggingastofnun. Margir láta óánægjuna bitna á lífeyrissjóðunum. En það er ekki sanngjarnt.Ekki er við þá að sakast heldur stjórnvöld og almannatryggingar.
Flókin löggjöf um TR
Löggjöfin um almannatryggingar er mjög flókin. Ríkisstjórnin virðist notfæra sér það, þar eð hún talar mjög óljóst um þær breytingar,sem á að gera á löggjöfinni.Þannig töluðu ráðherrar um það á sumarþinginu og í tengslum við það, að það væri verið að afturkalla alla kjaraskerðinguna frá 2009 en það var langur vegur frá því, að það væri rétt.Aðeins var þá verið að afturkalla hluta hennar.Hið sama gildir um kosningaloforðin. Stjórnarflokkarnir hafa aðeins framkvæmt hluta þeirra og það á eftir að standa við stærsta kosningaloforðið; leiðréttingu lífeyris vegna kjaragliðnunar á krepputímanum.
Björgvin Guðmundsson
formaður kjaranefndar Félags eldri borgara í Reykjavík og nágrenni
No virus found in this incoming message.
Checked by AVG - www.avg.com
Version: 9.0.932 / Virus Database: 3684.1.1/6572 - Release Date: 02/07/14 14:56:00
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:34 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.