Þriðjudagur, 25. febrúar 2014
Eldri borgarar styðja lífeyrissjóðina
Björgvin Guðmundsson skrifar grein í DV í dag.Hún heitir: Eldri borgarar styðja lífeyrissjóðina.Þar segir svo:
Eldri borgarar styðja lífeyrissjóðina.Það er sótt að lífeyrissjóðunum um þessar mundir.Þeir sæta mikilli gagnrýni.Margt af þeirri gagnrýni byggist á misskilningi svo sem, að það sé lífeyrissjóðunum að kenna, að lífeyrir frá almannatryggingum sæti mikilli skerðinga vegna greiðslna úr lífeyrissjóði.Þar er ekki við lífeyrissjóðina að sakast heldur stjórnvöld. Það er alþingi og ríkisstjórn, sem hefur samþykkt þá miklu skerðingu á lífeyri frá TR, sem á sér stað um þessar mundir.Lífeyrissjóðirnir hafa ekki samþykkt þessa skerðingu.
Stöðva verður skerðinguna strax
Fjallað var um þessi mál á nýafstöðnum aðalfundi Félags eldri borgara í Reykjavík.Þar var eftirfarandi ályktun samþykkt: Aðalfundurinn fer fram á það, að ríkisstjórnin stöðvi þegar í stað skerðingu lífeyris aldraðra frá almannatryggingum vegna greiðslna úr lífeyrissjóði.Þessi skerðing er svo mikil í dag ,að hún eyðir með öllu ávinningi margra ellilífeyrisþega af því að hafa greitt í lífeyrissjóð.Aðalfundurinn lýsir yfir fullum stuðningi við lífeyrissjóðina.Aðalfundurinn áréttar,að lífeyrissjóðirnir eru eign sjóðfélaga enda þar um að ræða mikilvægasta þáttinn í ævisparnaði þeirra.
Aðalfundurinn samþykkti að stofna ætti embætti umboðsmanns aldraðra og skoraði á ríkisstjórn og alþingi að koma því máli í höfn.Verkefni umboðsmannsins á að vera að gæta hagsmuna aldraðra í hvívetna.Aldraðir eru varnarlausir gagnvart stjórnvöldum.Lög eru brotin á öldruðum hvað eftir annað; jafnvel mannréttindi eru brotin á eldri borgurum.Verkefni umboðsmanns aldraðra eru því ærin. Þá samþykkti aðalfundurinn að hækka ætti skattleysismörkin myndarlega.Í dag hækka þau aðeins í samræmi við hækkun neysluvísitölu.En þau þurfa að hækka miklu meira.Rífleg hækkun skattleysismarka er besta kjarabót eldri borgara.
Hækka þarf lífeyri um 20%
Félag eldri borgara í Reykjavík skorar á ríkisstjórnina að leiðrétta strax lífeyri aldraðra frá almannatryggingum vegna kjaragliðnunar á krepputímanum (sl. 4-5 ár).Til þess að leiðrétta þessa gliðnun þarf af hækka lífeyri aldraðra um 20% strax.Með kjaragliðnun er átt við það, að kaup láglaunafólks hefur hækkað miklu meira en lífeyrir. Bæði landsfundur Sjálfstæðisflokksins og flokksþing Framsóknarflokksins samþykktu að leiðrétta ætti þessa kjaragliðnun strax eftir kosningar.Það verður að efna þetta kosningaloforð.Og það verður að efna það strax.
Aðalfundurinn fagnaði því, að ríkisstjórnin hefur afturkallað mikið af kjaraskerðingunni frá 2009. Hún hefur afturkallað skerðingu frítekjurmarks vegna atvinnutekna og skerðingu grunnlífeyris.Útreikningur grunnlífeyris hefur verið færður til fyrra horfs og greiðslur úr lífeyrissjóði því ekki reiknaðar með tekjum við útreikning grunnlífeyris.Þetta var hvort tveggja samþykkt á sumarþinginu. Hins vegar leiðrétti ríkisstjórnin ekki sl. sumar skerðingarhlutfall tekjutryggingar ,sem var hækkað 2009. Við hækkun á skerðingarhlutfalli tekjutryggingar urðu 19000 eldri borgarar fyrir kjaraskerðingu.Ríkisstjórnin ákvað að láta þennan hóp bíða í hálft ár eftir kjaraleiðréttingu og öryrkjar máttu einnig bíða.En lögin um hækkað skerðingarhlutfall tekjutryggingar voru tímabundin og giltu út árið 2013.Þessi kjaraskerðing féll því sjálfvirkt úr gildi.Ríkisstjórnin þurfti ekkert að gera annað en að bíða og það gerði stjórnin.Hún beið og lét aldraða og öryrkja líka bíða í hálft ár eftir kjarabót,sem lofað var í kosningunum að kæmi strax eftir kosningar.
Aðalfundur FEB samþykkti einnig að afnema ætti strax skerðingu tryggingabóta aldraðra vegna atvinnutekna.Það á ekki að refsa eldri borgurum fyrir að vinna.
Björgvin Guðmundsson
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 06:39 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.