Þriðjudagur, 11. mars 2014
Ríkisstjórnin tekur kjarabætur aldraðra til baka
Björgvin Guðmundsson skrifar grein í DV í dag,um málefni aldraðra og öryrkja.Þar segir svo:
Frá áramótum hafa ýmsar gjaldskrár hins opinbera verið að hækka.Rétt fyrir áramótin undirritaði heilbrigðisráðherra,Kristján Þór Júlíusson,reglugerðir um hækkun á ýmsum gjaldskrám í heilbrigðiskerfinu og um minni niðurgreiðslur en áður á ýmsum hjálpartækjum og stoðtækjum,sem öryrkjar og aldraðir þurfa að nota til þess að geta dvalist í heimahúsum þrátt fyrir heilsubrest.Komugjöld á heilsugæslu í Reykjavík, á slysadeild og á bráðavakt Landspítalans voru hækkuð,svo og gjöld fyrir viðtöl við sérfræðilækna.
Komugjöld hækkuð um 20%
Komugjöld til heilsugæslu voru hækkuð um 20% hjá eldri borgurum og öryrkjum.Komugjöld slysadeildar,bráðavaktar og göngudeildar LSH voru hækkuð um 6,6% hjá lífeyrisþegum.Viðtöl eldri borgara og öryrkja við sérfræðilækna hækka um 12,5% auk viðbótarhækkunar fyrir umframkostnaði.Þessar hækkanir eru allar mjög bagalegar fyrir eldri borgara og öryrkja. Hækkanir á hjálpartækjum, sem Sjúkratryggingar hafa greitt að fullu, koma sér mjög illa fyrir eldri borgara og öryrkja.T.d. hafa sjúkratryggingar greitt bleijur niður að fullu en nú þurfa eldri borgarar og öryrkjar að greiða 1/10 hluta verðsins.Það þýðir að lífeyrisþegar þurfa að greiða 4-5000 kr. fyrir þær á mánuði. Fyrir ýmis hjálpartæki,sem Sjúkratryggingar hafa leigt út frítt til sjúklinga, þarf nú að greiða .Þá hafa fargjöld strætisvagna hækkað.Gjald fyrir sjúkraþjálfun hefur hækkað um 25% hjá öldruðum. Og þannig mætti áfram telja. Þegar allar þær hækkanir,sem lenda á öldruðum og öryrkjum eru taldar saman er ljóst, að þær þurrka út allar þær kjarabætur sem eldri borgarar og öryrkjar hafa fengið frá því að nýja ríkisstjórnin tók við völdum.Formaður Þroskahjálpar og formaður Öryrkjabandalags Íslands segja, að kjarabæturnar hafi allar verið teknar til baka og rúmlega það.Ég er sammála því.
Lífeyrir aldraðra og öryrkja hækkaði aðeins um 3,6% um sl. áramót. Sú hækkun nær ekki verðlagshækkunum en verðbólgan var 4,2% á sl. ári.
Kjarabætur rýrar í roðinu
Svokallaðar kjarabætur,sem ríkisstjórnin hefur veitt lífeyrisþegum frá því hún kom til valda, eru mjög rýrar í roðinu.Ríkisstjórnin ákvað að gera breytingu á útreikningi grunnlífeyris og færa útreikninginn til fyrra horfs eins og hann var fyrir 1.júlí 2009.Samkvæmt því var hætt að reikna greiðslur úr lífeyrissjóði með tekjum við útreikning á grunnlífeyri.Við þessa breytingu fengu þeir, sem höfðu góðan lífeyrissjóð, kjarabætur.Þeir fengu grunnlífeyri á ný en þeir misstu hann 2009. LEB og FEB börðust fyrir því, að þessi breyting yrði gerð. Ríkisstjórnin breytti einnig frítekjumarki vegna atvinnutekna til fyrra horfs, þ.e. hækkaði það í 110 þús. kr. á mánuði úr 40 þús. á mánuði. Það er tiltölulega lítill hópur,sem fær kjarabætur vegna þessarar breytingar.Það er mjög erfitt fyrir eldri borgara að fá vinnu um þessar mundir, þar eð atvinnuástandið er erfitt.Auk þess verður heilsa eldri borgara að leyfa, að farið sé út á vinnumarkaðinn.Framangreindar tvær breytingar voru mjög ódýrar fyrir ríkissjóð.Þriðja kjarabótin,sem verður nefnd hér, er lækkun skerðingarhlutfalls tekjutryggingar til fyrra horfs, þ.e. úr 45% í 38,25%.Það gerðist sjálfvirkt um áramótin, þar eð lögin um hækkað skerðingarhlutfall tekjutryggingar féllu þá úr gildi (Þau áttu ekki að gilda lengur).Þessi breyting tók til margra aldraðra og öryrkja; var almenn aðgerð.Þessi aðgerð tók til lífeyrisþega,sem höfðu slæm kjör gagnstætt því, sem gilti um leiðréttingu á útreikningi grunnlífeyris, þar eð sú aðgerð tók til þeirra sem betur voru settir og höfðu góðan lífeyrissjóð.
Björgvin Guðmundsson
formaður kjaranefndar FEB
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:55 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.