Laugardagur, 21. apríl 2007
Góð tillaga Þorvaldar Gylfasonar
Þorvaldur Gylfason prófessor skrifar grein í Fréttablaðið, sem hann nefnir Við myndum stjórn. Þar setur hann fram þá hugmynd, að leiðtogar stjórnarandstöðunnar birti yfirlýsingu nú strax, sem væri efnislega á þá leið, að stjórnarandstöðuflokkarnir hafi ákveðið að mynda nýja meirihlutastjórn nái þeir tilskyldum meirihluta á alþingi í kosningunum í vor og að stjórnarandstaðan gangi bundin til kosninga að þessu leyti. Þetta er róttæk og góð tillaga.Munurinn á henni og kaffibandalaginu er sá, að samkvæmt tillögu Þorvaldar er engin undankoma frá því að stjórnarandstaðan myndi nýja stjórn. En kaffibandalagið gerir ráð fyrir, að viðræður stjórnarandstöðunnar um stjórnarmyndun séu fyrsti valkostur eftir kosningar. Ef ekki náist samkomulag milli flokka stjórnarandstöðunnar geti þeir rætt við aðra flokka um stjórnarmyndun. Sannur jafnaðarmaður Síðan birtir Þorvaldur Gylfason helstu atriðin, sem hann telur að eigi að vera stefnumál nýrrar ríkisstjórnar stjórnarandstöðunnar. Fyrsta atriðið í stefnuskránni er þetta: Við myndum jafnaðarstjórn.Við ætlum að hverfa frá þeirri ójafnaðarstefnu. sem núverandi ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks hefur markað. Við ætlum að draga úr ójöfnuði í samfélaginu með því að jafna aðstöðu launþega og fjármagnseigenda í skattalögum meðal annars með hækkun skattleysismarka. Við ætlum að tryggja öldruðum, öryrkjum og öðrum,sem höllum fæti standa, betri og tryggari kjör. Þorvaldur Gylfason rekur síðan stefnumálin áfram og það leynir sér ekki við lestur þeirra, að þarna fer sannur jafnaðarmaður. Björgvin Guðmundsson
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.