Mikil eftirvænting ríkti hjá mörgum eldri borgurum 1.ágúst, á síðasta ári, þegar launaseðlar Tryggingastofnunar ríkisins bárust þeim. Það var búið að tala svo mikið um það í fjölmiðlum, að ellilaunin mundu stórhækka, að aldraðir áttu von á góðum glaðningi. Morgunblaðið sagði með stríðsletri þvert yfir forsíðu 20.júlí: Þetta er veruleg aukning bótagreiðslna. Það var því von, að eldri borgarar ættu von á góðum glaðningi. En hvað kom upp úr launaumslögunum? Jú 1258 krónur! Von,að Pétur Guðmundsson forustumaður eldri borgara(LEB) segði í viðtali við Stöð 2 um hækkunina: Það er ekki hægt að hrópa hátt húrra fyrir henni. Þetta var hækkunin sem hinn dæmigerði ellilífeyrisþegi fékk.Hvernig mátti þetta vera. Jú það var eingöngu hækkun á grunnlífeyri, sem flestir fengu.Grunnlífeyririnn var hækkaður í 24.131 krónur á mánuði. Þetta var sú upphæð sem dæmigerður ellilífeyrisþegi fékk frá Tryggingastofnun eftir að hafa greitt háa skatta til samfélagsins á langri starfsævi.Síðan var tekinn skattur af þessari hungurlús.Um síðustu áramót fengu ellilífeyrisþegar síðan nýja hungurlús.Dæmigerður ellilífeyrisþegi,sem er í lífeyrisjóði fær enga tekjutryggingu eða stórskerta.( Á Norðurlöndum heldur hann óskertum bótum almannatrygginga þrátt fyrir tekjur úr lífeyrissjóði.) Hvað varð um 15 þúsund krónurnar? Hvað varð um 15 þúsund króna hækkunina, sem talað var um, að ellilífeyrisþegar ættu að fá frá 1.júlí. Hún sást ekki nema hjá örfáum.. Aðeins 400 manns fengu hana að frádregnum skatti. Það tók því að blása í lúðra og auglýsa þetta sem stórfelldar kjarabætur fyrir aldraða. Þetta virðist fyrst og fremst hafa verið auglýsingamennska.Morgunblaðið sagði 20.júlí: Hærri bætur,minni skerðingar og aukin uppbygging. En ekkert varð vart við minni skerðingu 1.ágúst.Talað var um að draga ætti úr skerðingu bóta vegna tekna maka,.m.a. vegna tekna maka úr lífeyrissjóði. En það kemur ekki til framkvæmda fyrr en 1.janúar 2009. Til hvers var verið að blása þetta upp nú, sem koma á til framkvæmda eftir mörg ár. Var það til þess að vekja falsvonir hjá ellilífeyrisþegum?. Í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar var ekkert talað um að skila aftur því mikla fjármagni,sem ríkið hefur haft af öldruðum á síðustu 12 árum en það eru margir tugir milljarða. Heimahjúkrun og vistun á hjúkrunarheimilum Í kaflanum um búsetu-og þjónustumál aldraðra er mikið talað um stórfelldar aðgerðir í framtíðinni og aukin fjárframlög til þeirra mála en það er þó eftir að leggja þau mál öll fyrir alþingi.Talað er um að auka framlag til heimahjúkrunar um 200 milljónir á þessu ári. Sú upphæð segir lítið, ef stefnan á að vera sú, að sem flestir aldraðir búi heima. Síðan er fjallað um fjölgun hjúkrunarrýma. Þar er stærsta atriðið að fé úr framkvæmdasjóði aldraðra eigi í framtíðinni að renna til uppbyggingar öldrunarstofnana! Sem sagt: Ríkið hefur í mörg ár látið greipar sópa um fé úr framkvæmdasjóði aldraðra og notað í rekstur. og styrki til gæluverkefna. En nú ætlar ríkið náðarsamlegast að hætta því ráðslagi. Með því á fjármagn til byggingar öldrunarheimila að aukast um 200 milljónir á ári en þó verður ekki látinn nema helmingurinn af því í ár ár, eða 100 milljónir! Það verður ekki gert stórt átak í því að byggja hjúkrunarheimili fyrir 100 milljónir.Ekki er gert ráð fyrir meira fjármagni til byggingar öldrunarheimila árið 2007. Ekkert er minnst á að ríkið skili þeim 2,5- 3 milljörðum króna,sem það hefur tekið úr framkvæmdasjóði aldraðra á síðustu 10 árum. Ef þeir peningar hefðu skilað sér til byggingar hjúkrunarheimila eins og til var ætlast í upphafi væri ástandið annað í þeim málum í dag en það er. Menn verða að athuga það, að stefnubreyting varðandi vistun aldraðra tekur langan tíma. Því verður ekki breytt í einu vetfangi að vista fleiri aldraða í heimahúsum. Enn um sinn verður mikil þörf fyrir aukið rými á hjúkrunarheimilum. Það virðist ekki fylgja mikill hugur máli hjá stjórnvöldum, ef þau ætla að auka framlag til heimahjúkrunar um 200 milljónir á þessu ári. Það segir lítið. . Björgvin Guðmundsson
Til baka á pistlasafn |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.