400 aldraðir á biðlista eftir hjúkrunarrými

 

 

400 eldri  borgarar eru nú á biðlista eftir hjúkrunarrými og nær 1000 manns búa við tvíbýli eða margbýli  á hjúkrunarheimilum eða öðrum sjúkrastofnunum. Þetta er óviðunandi ástand. Íslendingar, sem ein af ríkustu þjóðum heims, geta ekki búið  ellilífeyrisþegum sínum slíka aðstöðu. Í Danmörku eru allir eldri borgarar, sem búa á hjúkrunarheimilum, á einbýlisstofu. Eldri borgarar eiga að vera í einbýli á hjúkrunarheimili, ef þeir óska þess en að sjálfsögðu eiga hjón að fá að vera saman.

 Nógir peningar til 

Hvers vegna er ástandið svona slæmt í hjúkrunarmálum aldraðra? Hvers vegna eru biðlistarnir svona langir? Ekki er það vegna fjárskorts. Það eru nógir peningar til í þjóðfélaginu og stór upphæð liggur enn í geymslu í Seðlabankanum síðan Síminn var seldur. Það mætti taka af þeim peningum til þess að leysa vanda aldraðra hjúkrunarsjúklinga.Hátæknisjúkrahúsið mætti bíða á meðan.

 

Framkvæmdasjóður aldraðra misnotaður 

 Árum saman hafa allir skattskyldir Íslendingar greitt ákveðinn skatt í svokallaðan Framkvæmdasjóð aldraðra til þess að kosta byggingu hjúkrunarheimila fyrir aldraða.Það hefur verið upplýst um það hneyksli, að  sjóður þessi hefur verið herfilega misnotaður af ráðherrum Framsóknarflokksins. Drjúgur hluti sjóðsins hefur verið notaður til styrkveitinga í ýmis gæluverkefni ráðherranna svo sem til söng-og listastarfsemi og verulegur hluti sjóðsins hefur verið notaður í rekstur (í eyðslu) enda þótt sjóðurinn væri eins og nafn hans bendir til stofnaður til þess að kosta framkvæmdir í þágu aldraðra. Það munu a.m.k. 3 milljarðar hafa verið “teknir” úr sjóðnum til þessara þarfa. Eldri borgarar krefjast þess,að þessari fjárhæð verði strax skilað og hún notuð til byggingar hjúkrunarheimila. Það er vítavert,að Framkvæmdasjóður aldraðra skuli hafa verið misnotaður svo herfilega sem raun ber vitni.

Krafan er: Burt með biðlista aldraðra.

 

Björgvin Guðmundson

 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband