Föstudagur, 22. janúar 2016
Alvarlegur ágreiningur um húsnæðismálin milli stjórnarflokkanna
Alvarlegur ágreiningur um húsnæðisfrumvörpin ríkir milli stjórnarflokkanna.Í viðtali við RUV í gær sagði Ragnheiður Ríkharðsdóttir formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins,að Sjálfstæðisflokkurinn aðhylltist séreignastefnu í húsnæðismálum en Framsókn vildi greiða fyrir leiguíbúðum.Tvö af frumvörpum þeim um húsnæðismál ,sem lögð hafa verið fram á alþingi, voru afgreidd með fyrirvara úr þingflokki Sjálfstæðisflokksins.Það er því ekki fullur stuðningur flokksins við frumvörpin.Sigríður Ingibjörg þingmaður Samfylkingarinnar spurði Bjarna Benediktsson um afstöðu Sjálfstæðisflokksins til húsnæðisfrumvarpanna á alþingi í gær.Hann fór eins og köttur í kringum heitan graut í svari sínu og sagði,að frumvörpin hefðu verið afgreidd í ríkisstjórn og þingflokki Sjálfstæðisflokkins og væru komin inn í þingið en hann leyndi því,að 2 frumvarpanna hefðu verið afgreidd með fyrirvara.Það þýðir að Sjálfstæðisflokkurinn styður ekki frumvörpin nema gerð verði breyting á þeim.
Það hefur verið mikil þrautaganga hjá Eygló félagsmálaráðherra að koma frumvörpunum inn í þingið.Bjarni Benediktsson lá á frumvörpunum mánuðum saman í fjármálaráðuneytinu og hleypti þeim ekki í gegn. En þrautagöngu Eyglóar virðist ekki lokið þó frumvörpin séu komin inn í þingið.
Eitt frumvarpann gerir ráð fyrir auknum stuðningi við byggingu leiguíbúða.Það er m.a. gert ráð fyrir hækkun húsaleigubóta. Ritari Sjálfstæðisflokksins hefur tekið ákveðna afstöðu gegn auknum stuðningi við byggingu leiguíbúða. Unga fólkið ræður ekki við að kaupa íbúðir í dag.Það hefur ekki svo mikið eigið fé sem leggja þarf fram.Þess vegna er eðlilegt að greiða fyrir að unga fólkið og láglaunafólk geti tekið sér íbúðir á leigu. Verkalýðshreyfingin gerði kröfu til þess við gerð kjarasamninga að ríkisstjórnin greiddi fyrir byggingu leiguíbúða.Það samþykkti ríkisstjórnin en samt dregur Sjálfstæðisflokkurinn enn lappirnar í málinu.Gefi flokkurinn sig ekki í málinu eru kjarasamningar um næstu mánaðamót í hættu.Fróðlegt verður að sjá hvernig þessari deilu stjórnarflokkanna lýkur.Fram til þessa hefur Framsókn yfirleitt látið Sjálfstæðisflokkinn valta yfir sig. Verður það ef til vill eins í þessu máli?
Björgvin Guðmundsson
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkur: Bloggar | Breytt s.d. kl. 07:36 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.