Þriðjudagur, 2. febrúar 2016
Hverjir eru að fá "góðar bætur" frá þessari ríkisstjórn?
Núverandi ríkisstjórn hefur haft þá stefnu að láta atvinnurekendur fá afnot af auðlindum landsins gegn lágu eða engu afgjaldi.Veiðigjöldin hafa verið stórlækkuð i tíð þessarar stjórnar.Fyrsta verk þessarar ríkisstjórnar var að láta útgerðina fá " góðar bætur ". Lengi vel höfðu tiltölulega fáir útvaldir afnot af sjávarauðlindinni án nokkurrar greiðslu.Núverandi stjórn hefur einnig afnumið auðlegðarskattinn og lækkað skatta af þeim tekjuhæstu.Á sama tíma neitar ríkisstjórnin öldruðum og öryrkjum um eðlileg kjör og segir,að "bætur" þeirra eigi ekki að vera eins háar og lágmarkslaun!Eignir ríkisbankans (Borgun) eru seldar fyrir "slikk" og kaupendur fá í kaupbæti mikinn arð og söluhagnað,sem ríkisbankinn sjálfur hefði getað fengið,ef rétt hefði verið haldið á málum.Stórútgerðin hefur fengið "góðar bætur" frá ríkinu og hið sama má segja um kaupendur Borgunar.Þeir fengu " góðar bætur" frá Landsbankanum,sem eigendur bankans,skattgreiðendur,hefðu getað notið. Lífeyrisþegar eru hins vegar ekki að fá neinar bætur. Þeir fá laun,eftirlaun og lífeyri frá almannatryggingum,sem þeir eiga rétt á en þessum lífeyri hefur verið haldið niðri af núverandi ríkisstjórn, þar eð hún vill heldur nota fjármunina í greiðslu bóta til atvinnurekenda.
Lífeyrir aldraðra er ekki bætur. Aldraðir hafa alla sína starfsævi greitt skatta til ríkisins og þeir eiga því rétt á lífeyri frá almannatryggingum,þegar þeir láta af störfum. Þeir halda áfram að greiða skatta þó þeir séu hættir störfum.
Í dag greiða þeir sjálfir 60% af þeim lífeyri,sem þeir fá ( gegnum lífeyrissjóðina) frá TR og lífeyrissjóðum.Hið sama er að segja um öryrkja.Þeir eiga rétt á lífeyri frá almannatryggingum og lífeyrissjóðum,ef þeir slasast eða veikjast og geta ekki haldið áfram störfum.Það er kominn tími til,að stjórnmálamenn hætti að tala niður til lífeyrisþega og hætti að tala um bætur,þegar laun þeirra eða lífeyrir á í hlut.Þetta eru einfaldlega laun og lífeyrir lífeyrisþega. Það eru hins vegar aðrir í þessu þjóðfélagi,sem eru að fá "góðar bætur" frá þessari ríkisstjórn.
Björgvin Guðmundsson
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkur: Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:45 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.