Miðvikudagur, 3. febrúar 2016
Tillaga mín um Samfylkinguna
Björgvin Guðmundsson skrifar um það hvað Samfylkingin á að gera til þess að ná vopnum sínum á ný:
Hvert á Samfylkingin að fara? Hver á stefna Samfylkingarinnar að vera? Þetta eru spurningar,sem ég ætla að reyna að svara í þessari grein.Samfylkingin hefur átt á brattann að sækja frá síðustu alþingiskosningum.Um tíma virtist flokkurinn vera að ná vopnum sínum og fylgið jókst mikið í skoðanakönnunum en síðan virðist hafa fjarað aftur undan flokknum.Hið sama má að vísu segja einnig um hina gömlu flokkana,Framsókn,VG og Sjálfstæðisflokkinn.
Boða á nútíma jafnaðarstefnu!
Samfylkingin er flokkur jafnaðarmanna á Íslandi. Flokkurinn á að boða jafnaðarstefnuna en gerir það ekki, a.m.k verður almenningur ekki var við,það.Ég á ekki við það, að boða eigi hin gömlu úrræði jafnaðarstefnunnar,þjóðnýtingu og áætlunarbúskap.Nei,flokkurinn á að boða nútíma jafnaðarstefnu en gerir það ekki nægilega vel.Almenningur á ekki að velkjast í vafa um það fyrir hvað Samfylkingin stendur. Helstu úrræði nútíma jafnaðarstefnu eru fullkomnar almannatryggingar,réttlátt skattakerfi,sem stuðli að sem mestum jöfnuði í þjóðfélaginu og húsnæðiskerfi,sem tryggi láglaunafólki leiguíbúðir eða eignaríbúðir á hagstæðum kjörum.Full atvinna er eitt mikilvægasta stefnumál jafnaðarmanna og nátengd því er skynsamleg nýting náttúruauðlindanna og það stefnumál að þjóðin fái sanngjarnan arð af auðlindum sínum.Ég hef trú á því, að ef Samfylkingin boðar jafnaðarstefnuna,muni flokkurinn ná vopnum sínum á ný. Það, sem jafnaðarmenn eiga að leggja mesta áherslu á í boðskap sínum í dag, er eftirfarandi: Sjávarauðlindin verði færð í hendur þjóðarinnar á ný. Réttlátast er, að fiskveiðiheimildirnar verði boðnar upp eins og stjórnlagaráð vildi og samþykkti.Almannatryggingar verði stórefldar og gerðar réttlátari.Lífeyrir aldraðra og öryrkja verði stórhækkaður og verði í byrjun svipaður og kaup launþega (ófaglærðra).Stefnan í skattamálum stuðli að jöfnuði. Skattar verði lækkaðir og afnumdir á þeim tekjulægstu.Skattar verði hækkaðir á þeim tekjuhæstu og auðlegðarskattur tekinn upp.Skattleysismörkin verði stórhækkuð.
Lífeyrir aldraðra og öryrkja verði skattfrjáls
Lífeyrir aldraðra og öryrkja verði skattfrjáls.Stefnan í húsnæðismálum tryggi framboð,á hagstæðum leigu og eignaríbúðum.Verkamannabústaðakerfið verði endurreist. Ef Samfylkingin kemur með framangreind mál, sem eru flest gömul stefnumál jafnaðarmanna, mun það ekki fara á milli mála, að Samfylkingin er að berjast fyrir jafnaðarstefnunni.Undarfarið hafa ýmsir málsmetandi jafnaðarmenn látið í sér heyra og varpað fram spurningunni um það hvað mætti gera til þess að efla Samfylkinguna á ný. Að mínu mati er það mjög einfalt eins og ég hef bent á hér: Að boða jafnaðarstefnuna.
Birt í DV 21.júlí 2015
Björgvin Guðmundsson |
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkur: Bloggar | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.