Sunnudagur, 14. febrúar 2016
Hægri menn sjá ofsjónum yfir lífeyri aldraðra og öryrkja!
Harðir hægri menn sjá ofsjónum yfir því hvað aldraðir og öryrkjar fái "mikinn" lífeyri" frá almannatryggingum.Þeir mega alls ekki hugsa til þess að lífeyrisþegar fái jafnmikinn eða meiri lífeyri en nemur lágmarkslaunum verkafólks. Þetta kom vel í ljós hjá leiðtoga hægri manna " Bjarna Benediktssyni" við umræður um lífeyrismál aldraðra og öryrkja á alþingi í lok síðasta árs.Bjarni tók það þá skýrt fram,að lífeyrir eða bætur eins og hann vill kalla lífeyrinn mættu ekki vera jafnháar lágmarkslaunum.Þá væri enginn hvati fyrir aldraða og öryrkja til þess að fara út á vinnumarkaðinn! Eða m.ö.o.: Bjarni vill senda gamalmenni út að vinna! Og öryrkjar,sem hafa skerta starfsorku og margir enga starfsorku eiga að skila meira vinnuframlagi!Tölfræði um vinnuframlag eldri borgara á Norðurlöndum leiðir í ljós,að hvergi er vinnuframlag aldraðra eins hátt og hér.
Hægri menn tala mikið um það,að þeir, sem yngri eru, þurfi að vinna mikið fyrir lífeyri aldraðra og öryrkja.Þeir virðast gleyma því, að það eru eldri borgarar,sem hafa byggt upp þetta þjóðfélag.Og þeir athuga ekki alltaf, að lífeyrisþegar borga fullan skatt af lífeyri sínum.Sumir "últra" hægri menn tala um eldri borgara og öryrkja,sem eru á strípuðum lífeyri,sem hálfgerðar afætur á þjóðfélaginu! Sumir segja jafnvel,að þeir hafi komið sér í þetta sjálfir (að fá ekki úr lífeyrissjóði); í sömu andrá tala þeir um einyrkja,verktaka og fleiri sem ekki hafi greitt skatta eða í lífeyrissjóð.Þetta er ógeðsleg umræða.Það er að sjálfsögðu ekki unnt að alhæfa um atriði eins og þessi.Þó einhverjir syndaselir finnist er ekki unnt að yfirfæra syndir þeirra yfir á aðra sem eru saklausir.
Aðalatriðið er þetta: Við lifum í velferðarþjóðfélagi.Slíkt þjóðfélag greiðir lífeyri til aldraðra og öryrkja og samkvæmt túlkun á stjórnarskránni á sá lífeyrir að vera það mikill, að unnt sé að lifa mannsæmandi lífi af honum. Það er ekki unnt í dag hjá þeim,sem verða að treysta á lífeyri almannatrygginga eingöngu.
Björgvin Guðmundsson
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkur: Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:15 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.