Getur Alþingi hundsað stjórnarskrá,sem þjóðin samþykkti?

Í Fréttablaðinu í gær birtist stórmerkileg  grein eftir prófessor við Harvard háskóla um stjórnarskrána,sem samþykkt var í þjóðaratkvæðagreiðslu hér árið 2012.Höfundurinn heitir Lawrence Lessig og er prófessor í lögum við einn virtasta háskóla Bandaríkjanna,Harvard.Hann segir um framtak Íslendinga á þessu sviði,að hér hafi þjóð í fyrsta sinn á sögulegum tímum samið sér stjórnarskrá með gegnsæjum hætti og samtakamætti og nýtt til þess tækni,sem ekki var til fyrr en á tuttugustu og fyrstu öld.En þó vilji svo undanlega til,að þessi stjórnarskrá hafi ekki enn öðlast gildi.

Eitt þúsund ríkisborgarar voru valdir með slembiúrtaki  og komu sér saman um grunngildin,sem vert væri að standa um og svo var farið að semja stjórnarskrá með frjálsri þátttöku þeirra borgara,sem vildu taka þátt.Að frumkvæði alþingis var förinni haldið áfram með því að mæla fyrir um kosningu til sérstaks stjórnlagaþings.Ríflega 500 einstaklingar buðu sig fram til þess að sitja á þessu 25 manna þingi,sem síðar varð stjórnlagaráð.Fundahöld stóðu yfir í  liðlega 4 mánuði og voru verk stjórnlagaráðs jafnan birt  almenningi jafnframt sem  auglýst var eftir athugasemdum og tillögum frá borgurunum. Almenningur lagði fram 3600 athugasemdir og leiddu þær til ótal breytinga.Lokadrög voru samþykkt einróma af öllum fulltrúum stjórnlagaráðs og loks lögð fyrir þingið og þjóðina.Um tveir þriðju kjósenda sögust vilja þessi drög sem grundvöll að nýrri stjórnarskrá.

Síðan segir prófessor Lessig:Aldrei hafði neitt þessu  líkt gerst í sögu stjórnarskrárréttar.Ef lýðræði er vald þjóðar og ef fullveldi lýðræðisþjóðar byggist á vilja þjóðarinnar þá er þessi aðferð og þessi stjórnarskrá eins gild og ósvikin og stjórnarskrá annarra ríkja heimsins.Þó hefur alþingi hafnað þvi,að þessi stjórnarskrá skuli taka gildi.

Með hvaða rétti hefur alþingi hafnað því,sem þjóðin hafði samþykkt.

Próf.Lessig segir ennfremur:Þegar þjóðin hefur lokið við   stórvirki á borð við þetta,samið stjórnarskrá á víðtækari og opnari hátt en nokkur dæmi eru um í  sögu stjórnskipunaréttar og fengið verkið staðfest  með niðurstöðu ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu,hefur þá alþingi nokkurt siðferðilegt vald til þess að hafna henni.

Ég segi nei. Það er alger valdníðsla,að alþingi skyldi hafna þessari stjórnarskrá.Nú hefur þjóðin tækifæri til þess að taka í taumana og leiðrétta mistök alþingis.Þjóðin á að rísa upp og heimta sína stjórnarskrá,sem ákveðin var " á víðtækari og opnari hátt en nokkur dæmi eru um í sögu stjórnskipunarréttar".Þjóðin á ekki að láta alþingi valta svona yfir sig.

 

 Björgvin Guðmundsson


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Sæll Björgvin.

Ekki þekki ég neitt til þessa prófessors né hver það var sem bað hann um álit.

Ef hann er prófessor í lögum hefði hann auðvitað átt að skoða málið frá öllum hliðum, ekki þeirri einni að kosið var og að hans mati hafi Alþingi gengið framhjá þeirri kosningu.

Fyrir það fyrsta þá er skýrt í gildandi stjórnarskrá hvernig staðið skuli að breytingu hennar. Um það ákvæði þarf enginn að efast. Út frá því ákvæði var vægast sagt varasamt að fara í þann leiðangur sem síðasta ríkisstjórn valdi. Að velja eitt þúsund manna hóp með slembivali, til að skoða hvað mætti betur fara í stjórnarskránni er vissulega heimilt, en þaðan hlaut málið að fara til Alþingis, eins og stjórnarskrá segir til um. Kosning stjórnlagaþings, sem síðan var dæmd ólögleg af Hæstarétti og skipun þjóðlagaráðs í framhaldi af því, fer ekki saman við gildandi stjórnarskrá. Þetta hefði prófessor í lögum átt að sjá.

Ef við lítum framhjá þessu atriði og færum okkur nær í tímalínunni, eða þar til afurð stjórnlagaþings lá fyrir. Þjóðin fékk að segja sitt álit á þeirri afurð, þ.e. einungis einstökum handvöldum þáttum hennar. Þetta var skoðanakönnun, ekki kosning, skoðanakönnun um ákveðin atriði þeirrar afurðar sem stjórnlagaráð lagði fram. Það var aldrei kosið um eitt né neitt, einungis skoðanakönnun og fráleitt er að segja eða ætla að þjóðin hafi þar fengið að tjá hug sinn um afurðina í heild, þar sem einungis tiltekin handvalin efnisatriði voru lögð fyrir þjóðina. Því gat Alþingi aldrei litið þetta sem kosningu um tillögur stjórnlagaráðs, ekki einu sinni skoðanakönnun, utan auðvitað þau mál sem spurt var um. Verið getur að prófessorinn þekki ekki þessa staðreynd, fer auðvitað eftir því hvaða gögn honum hefur verið færð.

Þá er ljóst að þátttakan í skoðanakönnuninni var með eindæmum léleg og niðurstaðan með þeim hætti að útilokað er að segja að þjóðin hafi þar samþykkt eitthvað.

Það eru einungis tvær ástæður fyrir því að þessi prófessor gat komist að þessari niðurstöðu. Fyrri ástæðan gæti verið þekkingarleysi, að þeir sem fengu hann til þessa verks hafi matað hann af takmörkuðum upplýsingum þannig að hann gæti komist að þessari niðurstöðu. Hitt atriðið gæti verið að greitt hafi verið fyrir rétta niðurstöðu.

Hvort heldur er, þá er ljóst að samkvæmt gildandi stjórnarskrá er útilokað að komast að þeirri niðurstöðu sem prófessorinn lætur frá sér. Ef hann tæki starf sitt sem prófessor í lögum alvarlega hefði hans niðurstaða átt að hljóða upp á að öll sú vinna sem lögð var fram eftir að þúsund manna úrtakið hafði skilað sínu, væri ein lögleysa.

Gunnar Heiðarsson, 6.3.2016 kl. 22:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband