Þriðjudagur, 5. apríl 2016
Forsetinn og forsætisráðherra gengu of langt!
Ákvörðun Sigmundar Davíðs um að stíga til hliðar sem forsætisráðherra kom ekki á óvart.Hins vegar olli fundur forseta Íslands með Sigmundi Davíð mikilli undrun.Svo virðist sem þeir hafi báðir gengið of langt á þeim fundi. Svo virðist sem Sigmundur Davíð hafi farið á fund forseta til þess að fá fyrirfram samþykki við því að hann( Sigmundur Davíð) mundi rjúfa þing og boða til kosninga.Gallinn er sá,að Sigmundur Davíð fór á fund forseta til þess að fá fyrirfram samþykki við þingrof án þess að hafa borið það undir Sjálfstæðisflokkinn. Forseti neitaði beiðninni. Svo virðist því sem Sigmundur Davíð hafi ætlað að knýja Sjálfstæðisflokkinn til áframhaldandi samstarfs með þingrofsheimild upp í erminni!
Þau óvenjulegu tíðindi gerðust,að forsetinn boðaði til blaðamannafundar um fund sinn með forsætisráðherra og greindi þar frá samtali þeirra.Forseti gaf til kynna að forsætisráðherra hefði ætlað að fá heimild strax til þingrofs og hefði haft bréf þar um tilbúið til undirritunar.Þessu neitaði Sigmundur Davíð forsætisráðherra. Hann kvaðst hafa beðið um heimild til þingrofs, ef í ljós kæmi ,að þingmenn Sjálfstæðisflokksins væru ekki tilbúnir til þess að styðja stjórnina áfram.Hér ber mikið á milli.
Sigmundur Davíð gekk of langt með því að fara fram á þingrofsheimild án samráðs við Sjálfstæðisflokkinn.En forsetinn gekk einnig of langt með því að efna til blaðamannafundar um fund sinn með forsætisráðherra. Ég tel mjög líklegt,að forsetinn hafi einnig oftúlkað beiðni Sigmundar Davíðs.
En hvers vegna efndi forseti til blaðamannafundar um málið? Var það til þess að sýna að hann hefði pólitísku hlutverki að gegna eins og oft áður? Að mínu mati gekk hann of langt.
Björgvin Guðmundsson
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkur: Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:17 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.