Föstudagur, 13. maí 2016
Opið bréf til forsætisráðherra!
Hr. Sigurður Ingi Jóhannsson,forsætisráðherra!
Á flokksþingi Framsóknarflokksins 2013 var samþykkt að leiðrétta lífeyri aldraðra og öryrkja vegna kjaragliðnunar (kjaraskerðingar) þeirra á krepputímanum (2009-2013). Á landsfundi Sjálfstæðisflokksins var hliðstæð samþykkt gerð en þar var orðalagið, að leiðrétta ætti strax lífeyri aldraðra til samræmis við hækkun lægstu launa 2009-2013.Til þess að efna þessi loforð þarf að hækka lífeyrinn frá almannatryggingum um 25%.
Með því að alþingiskosningar eiga að fara fram næsta haust legg ég til, að ríkisstjórnin semji áætlun um það hvernig hún ætli að efna þetta loforð. Eldri borgarar mundu helst kjósa, að þetta loforð yrði efnt í einu lagi og lífeyrir hækkaður fyrir kosningar um 25%. En treysti ríkisstjórnin sér ekki til þess mætti framkvæma þessa hækkun í tvennu lagi.
25% hækkun á lífeyri þýðir 61500 króna hækkun á mánuði fyrir skatt hjá einhleypingum. Við þá hækkun færi lífeyrir frá TR í rúmar 300 þúsund krónur á mánuði.En það er einmitt sú hækkun, sem samþykkt var á þingi Landssambands eldri borgara fyrir rúmu ári og þetta er samhljóða því, sem verkafólk samdi við Samtök atvinnulífsins um, þ.e. að lífeyrir hækkaði í 300 þúsund krónur á mánuði fyrir 2018.
Hr.forsætisráðherra! Ég vænti þess,að ríkisstjórnin vilji ,að stjórnarflokkarnir standi við loforðið,sem þeir gáfu öldruðum og öryrkjum fyrir kosningar 2013.
Virðingarfyllst
Björgvin Guðmundsson,viðskiptafræðingur,eftirlaunamaður.
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkur: Bloggar | Breytt s.d. kl. 06:55 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.