Miðvikudagur, 25. maí 2016
Mannréttindi brotin á eldri borgurum
Mikil átök urðu á síðasta ári um kjaramál eldri borgara.Ríkisstjórnin vildi ekki veita öldruðum sömu hækkun á lífeyri sínum eins og launþegar höfðu fengið.Sá,sem stóð fremstur í fylkingu að koma í veg fyrir að aldraðir fengju sambærilega hækkun og launafólk var fjármálaráðherrann,Bjarni Benediktsson.Hann virðist hafa talið,að ríkiskassinn stæði og félli með kjörum eldri borgara.
Vegna þvermóðsku fjármálaráðherra samþykkti kjaranefnd Félags eldri borgara í Rvk eftirfarandi ályktun:
Kjaranefnd FEB harmar neikvæð viðbrögð fjármálaráðherra við eðlilegri leiðréttingu á lífeyri aldraðra í kjölfar nýrra kjarasamninga verkalýðsfélaganna.Krafa verkalýðsfélaganna um 300 þúsund króna lágmarkslaun hefur náð fram að ganga. Í samræmi við það eiga eldri borgarar að fá sambærilega hækkun á sínum lífeyri enda er það lögbundið,að við hækkun lífeyris sé tekið mið af launaþróun en lífeyrir hækki þó aldrei minna en vísitala neysluverðs.Kjaranefndin skorar á fjármálaráðherra að endurskoða afstöðu sína til leiðréttingar á lífeyri eldri borgara.Sé það meining fjármálaráðherra að hafa af eftirlaunafólki sambærilega hækkun á lífeyri og fólk á almennum vinnumarkaði fær á sínum launum er það hreint mannréttindabrot.Það er lögbundið hér og í samræmi við alþjóðasamninga um mannréttindamál,að eldri borgarar njóti sama réttar og aðrir þegnar þjóðfélagsins.
Eldri borgarar hafa fengið miklu minni hækkanir lífeyris á síðasta ári og í ár en launþegar fengu og þeir fengu hækkanir miklu seinna. Það var níðst á öldruðum. Og það er ekki enn farið að samþykkja að aldraðir fái hækkun í 300 þúsund á mánuði eins og launþegar.
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkur: Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:46 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.