Laugardagur, 17. september 2016
Uppgjör föllnu bankanna kom vel út fyrir ríkið
Steingrímur J.Sigfússon fyrrverandi fjármálaráðherra var í kastljósi í fyrradag í viðtali um prívatskýrslu Vigdísar Hauksdóttur og Guðlaugs Þórs um endurreisn viðskiptabankanna í upphafi bankahrunsins.Helgi Seljan ræddi við Steingrím.
Í prívatskýrslunni er Steingrímur J. Sigfússon borinn þungum sökum. Hann er sakaður um að hafa afhent kröfuhöfum bankana á alltof lágu verði. Steingrímur J sagði,að ekki væri fótur fyrir þessum áskunum. Hann rifjaði upp,að þeir Árni J.Mathiesen þá fjármálaráðherra og Davíð Oddsson þá Seðlabankastjóri hefðu í bréfi til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins fullvissað sjóðinn um það,að við yfirtöku og endurreisn bankanna yrði farið að lögum og stjórnarskrá,þar á meðal skiptalögum og ekki tekið meira af kröfuhöfum en lög leyfðu. Ríkisstjórnin hefði ekki haft neitt sjálfdæmi um það hvað mikið yrði tekið af kröfuhöfum. Það hefði verið háð mati óháðra endurskoðunarfyrirtækja.Ríkisstjórnin hefði falið endurskoðunarfyrirtækjum,innlendum og erlendum, að framkvæma hlutlaust mat á verðmæti eigna slitabúa bankanna. Það mat hefði verið lagt til grundvallar,þegar ríkisstjórnin ákvað að selja kröfubhöfum stóran hlut í föllnu bönkunum. Kröfuhafar áttu stærstan hluta þessara banka og ríkið hafði ekki bolmagn til þess að eignast þá.Almennt var talið,að ríkið hefði farið vel út úr endureisn viðskiptabankanna.Og endanlegt uppgjör leiðir í ljós,að ríkið fer með hagnað út úr þessum viðskiptum.
Gagnrýni Vigdísa Hauksdóttur og Guðlaugs Þórs gengur m.a. út á það,að fjármálaráðuneytið hafi tekið fram fyrir hendurnar á Fjármálaeftirlitinu með samningum við kröfuhafa föllnu bankanna. Þessari fullyrðingu hafnar Fjármálaeftirlitið í yfirlýsingu 29.janúar 2015 og segir,að viðræður fjármálaráðuneytisins við kröfuhafa hafi verið í fullu samræmi við skilyrði Fjármálaeftirlitsins og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.
Mín skoðun: Það er einnig algert rugl,að Steingrímur hafi verið að semja við kröfuhafana á einhverjum óeðlilegum grundvelli ( gefið kröfuhöfum bankana!).Það var fjöldi virtra sérfræðinga í samninganefnd fjármálaráðuneytsins,sem annaðist samninga fyrir ráðuneytið. Og samninganefndin studdist við mat virtra endurskoðunarfyrirtækja á verðmæti þrotabúanna.Einnig er það rangt, að ráðuneytið eða ríkisstjórnin hafi haft eitthvað með það að gera hverjir fengu afskriftir í bönkunum. Um það var ekkert fjallað fyrr en nýju bankarnir höfðu tekið til starfa og þeir bankar störfuðu sjálfstætt og tóku ákvarðanir um allar afskriftir án afskipta stjórnvalda.Skýrsla Vigdísar og Guðlaugs er algert vindhögg.Það var misnotkun á þingnefnd að kenna "skýrsluna" við meirihluta fjárlaganefndar."Skýrslan" var aldrei lögð fyrir nefndina.
Björgvin Guðmundsson
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkur: Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:45 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.