Fimmtudagur, 4. maí 2017
Staða aldraðra og öryrkja óásættanleg!
Hver er staða aldraðra og öryrkja í dag? Hefur hún batnað? Er hún ásættanleg?Með stöðu aldraðra og öryrkja er ekki aðeins átt við það, hvort lífeyrir aldraðra og öryrkja sé viðunandi, heldur einnig stöðu hjúkrunarmála lífeyrisfólks; framboð rýmis á hjúkrunarheimilum og heimahjúkrun.
Lífeyrir óviðunandi
Í dag opnar varla ráðamaður á Íslandi munninn án þess að hann tali um það hvað þjóðin hafi það gott,hagvöxtur sé í hámarki og staða ríkisfjármála ágæt.Í samræmi við það ætti lífeyrir aldraðra og öryrkja að vera ásættanlegur? En er það svo? Nei, það er langur vegur þar frá.Ný lög um almannatryggingar tóku gildi um siðustu áramót; þau höfðu verið í undirbúningi í meira en áratug.Samkvæmt því hefði átt að vera mikið kjöt á beinunum.En svo var ekki.Lögin voru rýr í roðinu.Í fyrstu var ekki boðin ein króna í hækkun til þeirra aldraðra og öryrkja,sem aðeins höfðu lífeyri frá almannatryggingum.Það var ekki fyrr en Félag eldri borgara í Reykjavík hafði haldið 1000 manna mótmælafund í Háskólabíó, að þáverandi ríkisstjórn lét undan og samþykkti hungurlús í hækkun til þeirra,sem voru á stripuðum lífeyri.Þegar hungurlúsin hafði náð fram að ganga var lífeyrir aldraðra í hjónabandi og i sambúð kominn í 197 þúsund á mánuði, eftir skatt.Lífeyrir einhleypra aldraðra hafði þá hækkað í 230 þúsund á mánuði eftir skatt.Það mundu víst margir aðrir geta lifað af þessum upphæðum í dag? Þetta er skammarlega lágt og enginn leið að framfleyta sér af þessum lífeyri.Þetta er óásættanlegt, þegar nógir peningar eru til í þjóðfélaginu.
305 þúsund á mánuði eftir skatt er lágmark
Hvað þarf lífeyrir að vera hár til þess að hann dugi fyrir sómasamlegri framfærslu? Svarið er þetta: 400 þúsund á mánuði fyrir skatt fyrir einhleypa eldri borgara.Það þýðir 305 þúsund kr á mánuði eftir skatt.Mér finnst þetta lágt,þegar haft er í huga að meðaltekjur einstaklinga voru 620 þúsund kr á mánuði fyrir skatt 2015.
Lífeyrir aldraðra og öryrkja er óásættanlegur,þ.e. þeirra sem hafa strípaðan lífeyri.Það er ekki unnt að lifa af honum. En hvað með aðra þætti,sem varða lífeyrisfólk? Hjúkrunarheimili.Þar er staðan einnig óásættanleg: Biðlisti eftir rými er 6-8 mánuðir. Og heimilin eru svo fjársvelt,að þau geta ekki ráðið nægilega margt fagmenntað fólk eins og hjúkrunarfræðinga.Þetta ástand er til skammar hjá velferðarríki. Talað er mikið um að stuðla eigi að því að eldri borgarar eigi að geta verið sem lengst heima.En ekkert er gert til að stuðla að því.Heimahjúkrun er einnig fjársvelt.
Samandregið: Það ríkir vandræðaástand í málefnum aldraðra og öryrkja á öllum sviðum.
Björgvin Guðmundsson
Fréttablaðið 4.mai 2017
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkur: Bloggar | Breytt s.d. kl. 06:34 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.