Fimmtudagur, 17. janúar 2008
Ástandið er verst hjá þeim,sem búa einir
Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar segir,að ríkisstjórnin muni leggja áherslu á að auka jöfnuð með því að bæta kjör þeirra,sem höllustum fæti standa. Ríkisstjórnin hefur enn lítið gert í því að efna þetta fyrirheit.Hún hefur þó byrjað að gera ráðstafanir til þess að hjálpa börnum en ekkert hefur enn verið gert til þess að bæta kjör þeirra aldraðra,sem höllustum fæti standa. Meðal aldraðra er ástandið verst hjá þeim,sem búa einir og hafa engan lífeyrissjóð. Þetta er tiltölulega lítill hópur en þessir einstaklingar hafa ekki nema 130 þúsund á mánuði fyrir skatta frá almannatryggingum eða ca. 116 þúsund á mánuði eftir skatta. Það lifir enginn mannsæmadi lífi af þeirri fjárhæð, þegar leiga er komin í 80- 100 þúsund á mánuði.Það kostar ríkið ekki mikið að lyfta lífeyri einhleypinga,sem eru á lægsta lífeyrinum. Það þarf að hjálpa þessu fólki strax en ekki síðar.
Síðan eru um 10 þúsund eldri borgarar,sem hafa lítið meira til ráðstöfunar en framangreindur hópur þó þeir hafi eitthvað lítilræði úr lífeyrissjóði, þar eð tekjur úr lífeyrissjóði skerða tryggingabætur. Eftir skatta og skerðingar verður lítið eftir. Lífeyri þessa hóps þarf einnig að hækka.Þessir tveir hópar eru forgangshópar. Það er ekki síður mikilvægt að afnema skerðingar vegna lífeyrissjóðstekna en vegna atvinnutekna. Sumir segja,að það sé jafnvel enn mikilvægara.
Björgvin Guðmundsson
ð
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:53 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.