Mánudagur, 25. febrúar 2008
Ætla stjórnvöld að hafa af öldruðum hækkun á bótum?
Sigurður Einarsson framkvæmdastjóri FEB spurði félagsmálaráðuneytið að því hve mikið bætur aldraðra frá almannatryggingum mundu hækka vegna kjarasamninga. Svarið fer hér á eftir:
Já, ég reyndi ítrekað að svara skilaboðum þínum en án árangurs. Útfærsla á samkomulagsákvæðinu sem þú vísar til og er í 4. lið er í höndum fjármálaráðuneytisins að því er varðar hækkanir almannatryggingabóta og mun byggja á útreikningi á meðaltalslaunahækkununum samkvæmt kjarasamningum. Þeim útreikningum verður hraðað svo sem kostur er og hækkanir verða greiddar út þegar kjarasamningar hafa öðlast gildi. Hins vegar er kveðið á um að skoðaðar verði leiðir til að setja "ákveðin lágmarksviðmið í framfærslu" og það samkomulagsatriði verður tekið til umfjöllunar í verkefnisstjórn undir félags- og tryggingamálaráðuneytinu um endurskoðun á almannatryggingakerfinu.
Bestu kveðjur að sinni,
Ragnhildur.
Sem sagt: Svarið segir ekki neitt.Fjármálaráðuneytið er að athuga hvernig unnt er að þrýsta sem mest niður hækkun til aldraðra. Verkafólk fékk 18000 kr. strax sem er 15% hækkun og síðan fá margir 5,5% til viðbótar. Nú segir félagsmálaráðuneytið að aldraðir eigi að fá einhverja meðaltals launahækkun. Á meðan aldraðir fengu sjálfvirkt þær hækkanir,sem samið var um á almennum vinnumarkaði þá var miðað við lágmarkslaun verkafólks. Slitið var á þessi sjálfvirku tengsl og ákveðið að taka mið af launahækkunum og verðlagshækkunum.En Davíð Oddson þá forsætisráðherra lýsti því þá yfir, að breytingin ætti ekki að verða öldruðum i óhag. Samkvæmt því eiga aldraðir nú að fá 15-20% hækkun á bótum almannatrygginga.
Björgvin Guðmundsson
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.