Mánudagur, 3. mars 2008
Gott orkufrumvarp Össurar
Orkufrumvarp iðnaðarráðherra hefur verið tekið til umræðu á alþingi.Í frumvarpinu er skilið á milli samkeppnisstarfsemi og almannaþjónustu í rekstri orkufyrirtækja, kveðið á um félagslegt eignarhald auðlinda sem nú eru í eigu almennings og gert ráð fyrir að einkaaðilar geti ekki átt fyrirtæki sem stunda almannaþjónustu.
Frumvarpið hefur verið vandlega undirbúið í iðnaðarráðuneytinu og hjá ráðgjöfum Össurar iðnaðarráðherra, ekki síst þeir þættir þess sem snerta stjórnarskrá og Evrópurétt. Ein af niðurstöðum þeirrar vinnu er að ekki sé hægt að stugga burt einkafjármagni sem þegar er komið í orkufyrirtæki sem á auðlindir, en tryggt verður samkvæmt frumvarpinu að ekki verði um frekari einkareksturs ævintýri að ræða þar sem ríki og sveitarfélög mega ekki framselja vatns- og jarðhitaréttindi varanlega til einkaaðila.
Meginatriði nýja frumvarpsins eru þessi:
Í fyrsta lagi er í frumvarpinu lagt til að gerð verði krafa um að sérleyfis- og samkeppnisþættir skuli reknir í aðskildum fyrirtækjum. Er þessi stefna mörkuð til að tryggja jafnan aðgang framleiðenda að flutnings- og dreifikerfum raforku og koma í veg fyrir samkeppnishindranir sem kunna að leiða af því að sérleyfis- og samkeppnisstarfsemi er rekin innan veggja sömu fyrirtækja.
Í öðru lagi er í frumvarpinu lagt til að í lögum verði kveðið á um að ríki, sveitarfélögum og fyrirtækjum sem alfarið eru í þeirra eigu, verði óheimilt að framselja varanlega beint eða óbeint, og með varanlegum hætti, vatns- og jarðhitaréttindi. Eina undanþágan frá þessu er framsal frá ríki og/eða sveitarfélögum til félaga í þeirra eigu, sem sérstaklega eru stofnuð til að fara með eignarhald þessara réttinda. Einungis verði heimilt að veita tímabundinn afnotarétt að slíkum réttindum til allt að 40 ára í senn. Þá er lagt til að forsætisráðherra verði falið að semja um endurgjald fyrir afnotarétt í eigu ríkisins, en hann fer þegar með það umboð varðandi nýtingu réttinda í þjóðlendum.
Í þriðja lagi er lagt til að kveðið verði á um að fyrirtæki sem reka starfsemi á orkusviði sem byggir á sérleyfum, þ.e. raforkuflutning, raforkudreifingu og rekstur hitaveitu, skuli a.m.k. vera að 2/3 hlutum í eigu opinberra aðila.
Nokkrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa gert athugasemdir við frumvarpið,þar á meðal Sigurður Kári Kristjánsson. Hann er ósáttur við að hinu opinbera skuli bannað að framselja varanlega vatns og hitaréttindi til einkaaðila.En ég fagna sérstaklega því ákvæði.
Björgvin Guðmundsson
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:56 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.