Afstaða flokkanna til ESB á skjön við vilja kjósenda þeirra.Samfylkingin vill aðild

Íslendingar eiga að einhenda sér í að breyta stöðunni í efnahagsmálum í það horf að hagkerfið uppfylli skilyrðin sem sett eru fyrir evruaðild. „Ég tel að við getum öll sammælst um það hvar í flokki sem við stöndum, og hvaða skoðun sem við höfum á Evrópusambandinu,“  sagði Ingibjörg Sólrún Gísladóttir formaður Samfylkingarinnar meðal annars í Mannamáli Sigmundar Ernis Rúnarssonar á Stöð tvö í fyrradag.

Sigmundur Ernir spurði Ingibjörgu Sólrúnu mjög um Evrópusambandið og afstöðu ríkisstjórnarinnar og Sjálfstæðisflokksins til þess. Formaður Samfylkingarinnar sagði sína afstöðu og flokks síns ljósa í því máli en aðrir flokkar hefðu ekki gert málið upp við sig á sama hátt og virtust reyndar flestir á skjön við vilja kjósenda sinna í málinu. Ríkisstjórnin hefði ekki á dagskrá aðildarumsókn en hefði sett á fót einskonar vaktstöð með Evrópunefndinni sem skipað var í um daginn.

Ingibjörg Sólrún vék síðan talinu að efnahagsmálum og nefndi „annað sem ég tel reyndar mjög brýnt og ég tel að við getum öll sammælst um, hvar í flokki sem við stöndum og hvaða skoðun sem við höfum á Evrópusambandinu, og það er að við eigum núna að einhenda okkur í það að koma málum í það horf á Íslandi að við uppfyllum þau skilyrði sem gerð eru til þess að við getum verið aðilar að myntbandalagi Evrópu. Því jafnvel þótt við sæktum nú um í dag, og kæmumst inn í Evrópusambandið á morgun, ef því væri að skipta, þá komumst við ekkert inn í myntbandalagið, komumst ekkert inn í evruna, vegna þess að við uppfyllum ekki skilyrðin.“ Sigmundur Ernir: „Vegna þess að efnahagurinn er í molum?“ Ingibjörg Sólrún: „Nei, það er ekki rétt, í raun og veru er staðan mjög góð í íslensku efnahagslífi að mörgu leyti. Við erum með traustan grunn, traustar stoðir ..., en vextirnir eru of háir, verðbólgan of mikil, viðskiptahallinn of mikill, þannig að við þurfum að einhenda okkur í það að breyta þessu, þannig að ef og þegar við viljum stíga þetta skref, þá getum við komist þarna inn.“

Segja má,að Ingibjörg Sólrún hafi talað óvenju opinskátt um ríkisstjórnina og ESB í viðtalinu við Sigmund Erni og raunar talaði hún mjög opinskátt um afstöðu Sjálfstæðisflokksins.

Björgvin Guðmundsson


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband