Mánudagur, 24. mars 2008
Eiginfjárstaða íslensku bankanna 10% miðað við 6% í bandarískum bönkum
Vísir.is segir svo m.a.:
Hrun íslensku krónunnar í síðustu viku hefur vakið athygli fjölmiðla bæði í Bretlandi og Bandaríkjunum.
Í grein Telegraph segir að íslenska ríkisstjórnin berjist í bökkum við að koma í veg fyrir hrun efnahagslífsins. Bent er á að bankarnir hafi tapað háum fjárhæðum og sögur séu uppi um að Kaupþing banki verði þjóðvæddur á næstu misserum. Í grein Telegraph kemur einnig fram að Geir H. Haarde, forsætisráðherra, hafi reynt að gera grein fyrir stöðu íslensks efnahagslífs á erlendum vettvangi, en hann hafi talað fyrir daufum eyrum.
Wall Street Journal er öllu jákvæðara í garð íslensks efnahagslífs. Þó er bent á mikil krosseignatengsl í íslensku viðskiptalífi og því skapast sú hætta að fari einn íslensku bankanna á hausinn, hafi það keðjuverkandi áhrif og hættan á hruni eykst. Einnig sé það áhyggjuefni að um 40 vogunarsjóðir hafi tekið þá stöðu að veðja á að hagnast á gjaldþroti íslenskra fyrirtækja.
Hins vegar er tekið fram að eiginfjárstaða íslenskra banka sé mjög sterk, um 10 prósent samanborið við 6 prósent hjá bandarískum bönkum. Þar að auki hafi íslenskir bankar ekki tapað miklu á undirmálslánum á bandarískum húsnæðislánamarkaði.
Enn fremur segir blaðið að staðfesta Seðlabankans í að halda niðri verðbólgu hafi róandi áhrif á fjárfesta. Einnig liggi fyrir samkomulag milli norrænu Seðlabankanna sem felst í því að lendi einn þeirra í vandræðum, hlaupi aðrir undir bagga og tryggi neyðarfjármögnun. Þetta ætti að slá á áhyggjur fjárfesta.
Mér finnst nokkuð mikillar svartsýni gæta í erlendum blöðum um íslensku bankana. Þau virðast skrifa mikið í æsifréttastíl og ekki hirða nægilega mikið um staðreyndir.Of miklar ályktanir eru dregnar af lækkun krónunnar. Íslendingar vita,að það var búið að búast lengi við lækkun á genginu ,þar eð krónan var alltof hátt skráð.
Björgvin Guðmundsson
Björgvin Guðmundsson
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.