Fimmtudagur, 3. apríl 2008
Tekjur ríkisins lækka um 2 milljarða í ár vegna skattalækkana
Fjármálaráðherra hefur lagt fram á Alþingi frumvarp um breytingar á tekjuskattslögum í framhaldi af yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um aðgerðir til að liðka fyrir kjarasamningum fyrr í vetur. Samanlagt er áætlað að tekjur ríkissjóðs skerðist um 23 milljarða króna vegna ákvæða sem er að finna í frumvarpinu þegar þau eru að fullu komin til framkvæmda, en áhrifin á þessu ári eru talin nema tæpum tveimur milljörðum króna.
Meðal tillagna, sem er að finna í frumvarpinu, má nefna hækkun persónuafsláttar um sjö þúsund krónur á mánuði í áföngum á þremur árum umfram árlega verðuppfærslu. Þetta er talið minnka tekjur ríkissjóðs um 4,5 miljarða króna á næsta ári og 15 milljarða króna samanlagt þegar hækkunin er að fullu komin til framkvæmda.
Þá er einnig ákvæði í frumvarpinu um lækkun tekjuskatts hlutafélaga og einkahlutafélaga úr 18% í 15% og sameignarfélaga úr 26% í 23,5%. Tekjutap ríkissjóðs vegna þessa er talið geta numið allt að 5 milljörðum króna á ári.
Þá eru lagðar til breytingar á tekjuskerðingarmörkum barnabóta. Þau hækka í ár og aftur á næsta ári og er áætlað að það kosti ríkissjóð 1,2 milljarða króna í ár og 2 milljarða þegar þetta er að fullu komið til framkvæmda.
Loks er í frumvarpinu að finna ákvæði um 35% hækkun á eignaviðmiðunarmörkum vaxtabóta, sem kemur til framkvæmda við álagningu í ár og er áætlað að kosti ríkissjóð um 700 milljónir króna á ári.
Lækkun persónuafsláttar,sem helst mun gagnast almenningi kemur mjög seint til framkvæmda og á löngum tíma. Persónuafsláttur hækkar um 2 þús. kr. á næsta ári og síðan um 2 þús. þar næsta ár og að lokum um 3 þús. kr. þegar nálgast kosningar. Hins vegar fá atvinnurekendur strax næsta ár lækkun á skatti úr 18% í 15%. Það er að mínu áliti mjög óréttlátt að tekjuskattur á atvinnurekendum skuli vera mikið lægri en á einstaklingum. Það þarf að jafna skattinn,lækka hann stórlega hjá einstaklingum og hækka hann hjá atvinnurekendum.
Björgvin Guðmundsson
23 milljarða tekjuskerðing vegna skattalækkana | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.