Ný innflytjendastefna Jóhönnu Sigurðardóttur

Íslenskukennslu og samfélagsfræðslu fyrir innflytjendur á að efla, skýra rétt þeirra til túlkaþjónustu, herða á því að innflytjendur njóti sömu kjara, réttinda og vinnuverndar og aðrir á vinnumarkaði, einfalda regluverk kringum dvalar- og atvinnuleyfi. Þetta eru meðal sextán markmiða í nýrri innflytjendastefnu sem Jóhanna Sigurðardóttir félagsmálaráðherra hefur lagt fyrir alþingi sem þingsályktunartillögu eftir samþykkt í rikisstjórn.

Um er að ræða framkvæmdaáætlun sem unnið hefur verið að í samráði og er þessi áætlun hin fyrsta sinnar tegundar á Íslandi. Hún varð til með samstarfi ýmissa ráðuneyta, Sambands sveitarfélaga og annarra stofnana og samtaka og hefur innflytjendaráð haft forystu um verkefnið.

Þingsályktunartillagan byggist á stefnumörkun í 16 liðum sem hver um sig felur í sér eina eða fleiri aðgerðir. Meðal helstu verkefna áætlunarinnar eru:

* Að samin verði löggjöf um aðlögun innflytjenda sem meðal annars kveði á um atriði sem almenn löggjöf á einstökum sviðum tekur ekki til og móti stjórnkerfi innflytjendamála.
* Að innflytjendur á vinnumarkaði njóti sömu kjara, réttinda og vinnuverndar og aðrir.
* Að upplýsingaöflun, rannsóknir um innflytjendamál og miðlun upplýsinga til innflytjenda verði efld.
* Að skráning dvalar- og atvinnuleyfa verði einfölduð og samræmd.
* Að réttur til túlkaþjónustu verði skýrður.
* Að samin verði fyrirmynd að móttökuáætlunum sveitarfélaga og hlutverk ríkis og sveitarfélaga í málaflokknum skýrð.
* Að mat og viðurkenning á erlendri starfsmenntun og námi verði einfaldað.
* Að efnt verði til átaks gegn fordómum og mismunun og fordómafræðsla aukin.
* Að íslenskukennsla og samfélagsfræðsla verði efld.

Ég fagna þessari þingsályktun. Það var mikil þörf á henni. Ég vek athygli á aðeins 2 atriðum: Að innflytjendur á vinnumarkaði njóti sömu kjara og Íslendingar.Og að efnt  verði til átaks gegn fordómum  í garð útlendinga og mismunun.Það hefur vantað mikið á að innflytjendur nytu sömu kjara og innfæddir og fordómar eru miklir í garð útlendinga.

Björgvin Guðmundsson


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband