Þriðjudagur, 15. apríl 2008
Seðlabankanum hefur mistekist
Seðlabankinn hækkaði fyrir skömmu stýrivexti í 15,5%. Þeir voru þá hækkaðir um 1/2 prósntustig og var þetta 21.stýrivaxtahækkun Seðlabankans. Frá því að þessi síðasta vaxtahækkun Seðlabankans tók gildi hefur gengi krónunnar haldið áfram að lækka. En það var einn helsti tilgangur vaxtahækkunarinnar að styrkja krónuna og lækka verðlag á þann hátt.Seðlabankinn hefur sl. 7 ár stanlaust hækkað stýrivexti í þeim tilgangi að lækks verðbólguna. En verðbólgan hefur á þessu tímabili aukist en ekki minnkað.Aðgerðir Seðlabankans hafa algerlega mistekist.Þorvaldur Gylfason prófessor telur,að Seðlabankinn hafi brugðist við alltof seint. Hann hafi byrjað of seint að hækka stýrivexti og í of litlum skrefum til að byrja með. Í dag er alveg ljóst,að vaxtahækkun Seðlabankans hefur engin áhrif. Verðbólgan heldur áfram að aukast þrátt fyrir aðgerðir Seðlabankans og gengi krónunnar heldur áfram að lækka.Peningamálastefna Seðlabankans hefur brugðist. Tveir kennarar við háskólann telja,að skipta verði um áhöfn í Seðlabankanum.Það eru þeir Þorvaldur Gylfason prófessor og Gylfi Magnússon dósent,sem setja þessa skoðun fram og undir hana tekur Jón Baldvin Hannibalsson,fyrrverandi ráðherra.
Miklar umræður eiga sér nú stað um efnahagsmálin á Íslandi. Verðbólgan æðir áfram og getur farið fljótlega í tvegga stafa tölu. Því er jafnvel spáð,að hún gæti farið í 15%.Viðskiptahallinn er mjög mikill og bankarnir eiga í erfiðleikum með að útvega sér lánsfé erlendis vegna hás skuldatryggingarálags. Allir íslensku viðskiptabankarnir hafa skuldsett sig óeðlilega mikið. Þeir hafa farið óvarlega í lántökum erlendis og eiga nú í erfiðleikum með endurfjármögnun. Ef þeir geta ekki endurfjármagnað sig eru þeir í vondum málum. Ríkisstjórnin hefur sagt,að hún standi við bakið á bönkunum á sama hátt og ríkisstjórnir erlendis geri gagnvart sínum bönkum.Ég tel ekki koma til greina,að ríkissjóður eða Seðlabanki leggi framlög ( styrki) til bankanna. Þeir hafa grætt mikið undanfarin ár og hafa hirt gróðann sjálfir. Þeir verða sjálfir að koma sér út úr þeim vandræðum,sem þeir hafa komið sér í. Ef undirstöður bankanna fara að bila kæmi til greina að þjóðnýta bankana,eins og Þorvaldur Gylfason.hefur lagt til og að selja þá síðan á ný til aðila,sem kunna að reka banka.
Björgvin Guðmundsson
www.gudmundsson.net
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.