Fimmtudagur, 17. apríl 2008
Fá eldri borgarar meiri hækkun en þeir lægst launuðu á almennum vinnumarkaði?
Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir,þingmaður Samfylkingarinnar, er ötull baráttumaður fyrir bættum kjörum aldraðra og öryrkja og mikill stuðningsmaður Jóhönnu Sigurðardóttur. Hún ritar grein í Fréttablaðið í dag um það sem áunnist hefur í málefnum aldraðra og öryrkja í tíð þessarar ríkisstjórnar.Ég vil gera eina athugasemd við þessa grein.
Ásta Ragnheiður segir,að lífeyrisþegar hafi fengið 9400 kr. hækkun á lífeyri í kjölfar kjarasamninga og að meðtalinni hækkun um síðustu áramót. En síðan leggur hún við þessa hækkun 15 þús. kr. hækkun fyrir skatta,sem hún segir,að þeir sem ekkert hafi úr lífeyrissjóði fái 1.júlí n.k. Og þá verði þeir komnir með meiri hækkun en þeir lægst launuðu á almennum vinnumarkaði eða alls 24.400 kr. Þessar 25 þúsund krónur,sem verða ekki nema 8 þúsund krónur þegar búið er að skerða þær og skattleggja, koma aðeins í hlut lítils hóps aldraðra.Hinir fá ekkert,sem hafa einhverja hungurlús úr lífeyrissjóði. En ef þessar 15000 kr. fyrir skatta,sem Ásta Ragnheiður talar um, hafa eitthvað með kjarasamningana að gera þá hefðu þær átt að borgast úr 1.febrúar eins og 18000 kr. sem tugir þúsunda verkafólks fengu 1.febrúar.
Það munar um það,sem gert hefur verið en ég sakna þess,að ekki skuli gerðar ráðstafanir,sem gagnast öllum ellilífeyrisþegum og öryrkjum.En að sjálfsögðu mundu bætur hækka mismikið eftir aðstæðum þó um almennar ráðstafanir væri að ræða. En það væri þá ekki verið að skilja stóra hópa eftir eins og nú er gert.
Björgvin Guðmundsson
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.