Kreppa framundan á fasteignamarkaði?

Spár um kreppu á fasteignamarkaði virðast vera að ganga eftir. 51 kaupsamningi var þinglýst á höfuðborgarsvæðinu í nýliðinni viku. Það sem af er árinu hafa umsvif á fasteignamarkaði verið í sögulegu lágmarki, og nýjustu tölur benda til áframhaldandi samdráttar.

Á vef Fasteignamatsins eru birtar upplýsingar um fjölda kaupsamninga og veltu fasteignaviðskipta á höfuðborgarsvæðinu í 67 mánuði, frá september 2002. Á þessum tíma hefur verið algengast að 5-900 kaupsamningum hafi verið þinglýst í hverjum mánuði, mestu umsvifin voru seinni hluta árs 2004 þegar algengt var að yfir 1000 samningum væri þinglýst á mánuði.

Glögg skil urðu í byrjun þessa árs, þá má segja að fasteignamarkaðurinn hafi dottið niður í tæplega þriðjung þess sem algengast var allt frá 2004. Í janúar voru viðskiptin minnst, 324 samningar, þeir voru 425 í febrúar og 354 í mars. Í þessum mánuði stefnir í að viðskiptin verði svipuð og í febrúar. Þegar skoðaðar eru tölur um fjölda kaupsamninga í viku hverri er nýliðin vika, frá 18. til 24. apríl óvenju dauf, þá var 51 samningi þinglýst. Það lætur nærri að samsvara því að rétt um 2/3 löggiltra fasteignasala hafi selt fasteign þessa viku.

Í mars voru kaupsamningar tæpum 63% færri en í sama mánuði í fyrra, veltan í krónum talin var 55% minni. Ekki er að sjá að klár skil séu komin fram í skráðum tölum í framhaldi af spá Seðlabankans um 30% lækkun á raunverði íbúða, en áhrif spárinnar, sem sett var fram 10. apríl, gætu þó enn átt eftir að koma í ljós.

Svo virðist því sem spár um kreppu á fasteignamarkaði séu að koma fram, samkvæmt þeim tölum sem birtar hafa verið á árinu. Skýringar sem fram hafa komið eru einkum að tekið hefur að stórum hluta fyrir aðgengi að lánsfé, vextir hafa hækkað, lág fjárhæð hámarksláns Íbúðalánasjóðs, verð á íbúðum er enn mjög hátt, en Seðlabankinn spáir verðlækkun. Kaupendur hafa því að stórum hluta horfið af markaðnum.

Það er mjög alvarlegt,ef mikið verðhrun verður á fasteignum. Í mörgum tilvikum er fólk með aleigu sína í íbúðum sínum. Verðhrun á íbúðum þýðir því mikið eignatjón fyrir fólk. En það er lítið unnt að gera í málinu.Helst binda menn vonir við að Íbúðalánasjóður veiti áfram hagstæð lán til íbúðakaupa og helst,að vextir lækki enn meira.

 

Björgvin Guðmundsson

 

 


 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband