Fimmtudagur, 15. maí 2008
Björgvin G. vill öflugt neytendamálaráðuneyti
Þessar merkilegu skýrslur eru áfangi á langri leið, sagði Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra á ávarpi sínu á ráðstefnu viðskiptaráðuneytisins um neytendamál í gærmorgun. Efni skýrslnanna frá þremur háskólastofnunum kallaði ráðherrann fóður í stefnumótunina framundan en taldi einnig að sumar af tillögum höfundanna væri hægt að framkvæma strax. Þetta gagnast vel við þá vinnu sem stendur yfir við að byggja upp öflugt neytendaráðuneyti að norrænni fyrirmynd, sagði ráðherrann við undirtektir ráðstefnugesta.
Ráðstefnan náði hápunkti sínum þegar Björgvin Guðni afhenti í fyrsta sinn íslensku neytendaverðlaunin og fékk þau dr. Gunni fyrir Okursíðuna þar sem birst hafa um 600 frásagnir um neytendaviðskipti bæði um okur og góða frammistöðu frá því hann hófst handa í september. Fagnaði doktorinn eggi því eftir Koggu leirlistarmann sem honum var fært í viðurkenningarskyni og hvatti til þess að neytendamál yrðu gerð skiljanlegri og skemmtilegri. Lokaorð verðlaunahafans eiga erindi til allra Íslendinga: Okur á Íslandi er ekki náttúrulögmál. Ef þú lætur ekki okra á þér þá verður ekki okrað á þér.
.
Ráðstefnan var haldin undir kjörorðunum Ný sókn í neytendamálum og voru þar kynntar nýjar skýrslur sem viðskiptaráðherra óskaði eftir í haus frá Félagsvísindastofnun, Hagfræðistofnun og Lagastofnun Háskóla Íslands um neytendamál, sem viðskiptaráðherra óskaði eftir í haust. Skýrslurnar eru efnismiklar en þó ágætlega læsilegar og lýkur hverri og einni með tillögum höfunda um úrbætur og næstu skref. Þeim er sammerkt að bent er á fátæklegar rannsóknir um neytendamál á Íslandi og lagt til að rannsóknastarf sé aukið þó þannig að það tefji ekki nauðsynlegar aðgerðir.
Í tillöguköflunum er meðal annars lagt til að safna saman einstökum lögum og ýmsum lagagreinum í ein neytendalög til þæginda og aukins skilnings fyrir almenna neytendur, að endurskoða stjórnkerfi neytendamála með nýrri og markvissari Neytendastofu og skýrum verkaskiptum milli hennar, talsmanns neytenda og Neytendasamtakanna sem síðan þyrftu mun öflugri stuðning, að auka neytendafræðslu í grunnskóla og framhaldsskóla, að taka upp að norrænni fyrirmynd vísitölu neytenda um ástand neytendamála á ýmsum sviðum, að efla rannsóknir á hagfræði fákeppnisástands sem einkenndi íslenskan (og norrænan!) markað, bæta verulega innihaldsmerkingar á matvöru og takmarka markaðssókn gagnvart börnum og unglingum.
Framlag Félagsvísindastofnunar felst ekki síst í ýtarlegri könnun um viðhorf og venjur íslenskra neytenda, og gætir þar margra grasa. Meðal annars kemur fram að neytendur hérlendis eru ákaflega slakir á mörkuðum fjármálaþjónustu, orkukaupa og símaviðskipta þar sem áður var eitt ríkisfyrirtæki eða fáokun samráðsfyrirtækja. Tæplega 50% sagðist vera illa að sér um kjör bankanna, um 60% vissu lítið um verðið hjá tryggingafyrirtækjum, næstum 70% botnuðu lítið í verðskrám símafyrirtækjanna og um orkufyrirtækin var þessi tala um 80%. Þá kom fram að aðeins um 24% svarenda höfðu skipt um viðskiptafyrirtæki á einhverju þessara fjögurra sviða síðustu 12 mánuðina.
Ég vil á ný fagna framtaki Björgvins G. Sigurðssonar í neytendamálum. Það er greinilegt að hann ætlar að gera viðskiptaráðuneytið að öflugu neytendamálaráðuneyti og ekki láta við það sitja að tala um málið heldur að framkvæma. Það er gott. Hér er mikið verk að vinna. Íslenskir neytendur eru steinsofandi og það þarf að vekja þá.
Björgvin Guðmundsson
-
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.