Miðvikudagur, 21. maí 2008
Það vantar mörg ný hjúkrunarrými
Fyrir síðustu alþingiskosningar lagði Samfylkingin mikla áherslu á það að fjölga nýjum hjúkrunarrýmum. Samfylkingin hvaðst vilja beita sér fyrir því,að þeim yrði fjölgað um 400 á 2 árum og biðlistum útrýmt. Ljóst er,að þetta markmið næst ekki en unnið er að málinú í félags-og tryggingamálaráðuneytinu.
Á fundi AFA,aðstandendafélags aldraðra flutti Jóhanna Sigurðardóttir ráðherra ræðu og ræddi m.a. þetta mál. Hún sagði:
Fyrir liggur stefna ríkisstjórnarinnar um að hraða uppbyggingu 400 nýrra hjúkrunarrýma og að því vinn ég nú á þeim forsendum sem áður eru nefndar. Annað mikilvægt verkefni er að fækka fjölbýlum á hjúkrunarheimilum og færa aðstæður til nútímalegs horfs. Í árslok 2006 voru tæplega 850 aldraðir í fjölbýlum á hjúkrunarheimilum, flestir í tvíbýli. Til að mæta fækkun vegna breytinganna er þörf fyrir rúmlega 400 hjúkrunarrými til viðbótar. Gróflega áætlað nemur kostnaður við breytingar fjölbýla í einbýli og áform um fjölgun hjúkrunarrýma allt að 17 milljörðum króna. Til að takast á við þetta stóra verkefni er nauðsynlegt að nota fjölbreyttari fjármögnunarleiðir en hingað til hefur verið gert. Því hef ég ákveðið að nýta lagaheimild til að fjármagna framkvæmdir með leigu samhliða því að skoða fleiri leiðir til fjármögnunar.
Við uppbyggingu hjúkrunarrýma þarf að huga sérstaklega að þörfum heilabilaðra en það er sá hópur sem síst er hægt að þjónusta heima ef sjúkdómurinn er kominn á það stig að þörf er á stöðugu eftirliti.
Samkvæmt hjúkrunarmælingum á hjúkrunarheimilum eru tæp 65% aldraðra með heilabilun af einhverju tagi og 24% þess hóps eru með Alzheimer. Ekki er þörf fyrir hjúkrunarrými á sérstökum heilabilunareiningum fyrir nema hluta þessa hóps en gera má ráð fyrir að algjört lágmark sérstakra hjúkrunarrýma fyrir heilabilaða sé um 20% af heildarfjölda rýma. Þetta hlutfall ætla ég þó að skoða nánar í samvinnu við sérfræðinga þar sem gera má ráð fyrir umtalsverðri fjölgun í hópi þeirra sem þjást af heilabilun.
Á síðustu árum hefur verið unnið að því að fjölga dagvistarrýmum fyrir aldraða, en með aukinni áherslu á stuðning við aldraða til að búa sem lengst heima eykst þörf fyrir þetta úrræði. Ég vil halda áfram á þessari braut og leggja í verkefnið aukinn kraft, jafnframt því að leggja aukna áherslu á möguleika til hvíldarinnlagna með viðeigandi þjálfun og endurhæfingu.
Ég sagði áðan að ekki mætti ganga of langt í þeirri áherslu að þjónusta aldraða í heimahúsum. Veikindi, öryggisleysi og félagsleg einangrun geta valdið því að hagsmunum fólks er betur borgið í sambýlum eða á hjúkrunarheimilum með samfelldri viðveru og umönnun. Of rík áhersla á að annast fólk í heimahúsum getur einnig leitt til þess að of miklar byrðar séu lagðar á aðstandendur sem við vitum að gegna iðulega stóru hlutverki í umönnun aldraðra foreldra eða annarra nákominna ættingja. Við þurfum því að finna jafnvægi í framboði ólíkra úrræða sem mætir mismunandi þörfum fólks og aðstæðum.
Björgvin Guðmundsson
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.