Þriðjudagur, 27. maí 2008
Mesta lántaka Íslandssögunnar
Frumvarp ríkisstjórnarinnar um heimild til þess að taka 500 milljarða að láni var tekið fyrir á alþingi í morgun.Lántakan er hugsuð til þess að styrkja gjaldeyrisvarasjóð Seðlabankans .Samstaða hefur myndast milli allra flokka um að greiða fyrir afgreiðslu málsins.
Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri - grænna, sagði 500 milljarða króna lán sem lagt er til að ríkissjóður megi taka herkostnað stóriðju, skattalækkana og útrásarævintýra síðustu ára. Hann benti jafnframt á að Vinstri - græn hefðu ítrekað kallað eftir aðgerðum í efnahagsmálum.
Árni M. Mathiesen fjármálaráðherra mælti á Alþingi í dag fyrir frumvarpinu til þess að bregðast við erfiðri stöðu á fjármálamörkuðum og styrkja gjaldeyrisforða Seðlabankans. Frumvarpið var lagt fram í gærkvöld og þurfti að veita afbrigði til þess að geta tekið það fyrir á þingi í morgun. Fram kom í máli Árna að ekki lægi fyrir hvernig heimildin yrði nýtt en það réðist af aðstæðum.
Steingrímur gagnrýndi ræðu Árna og sagði hana bágborna og þróttlitla. Benti hann á að lánið væri það stærsta í Íslandssögunni og það væri afleiðing af stóriðju, skattalækkunum og útrásarævintýrum síðustu ára. Hagstjórnarmistök ríkisstjórnanna hefðu reynst dýr. Þá spurði hann við hverju mætti búast í afkomu ríkissjóðs með láninu og taldi að herkostnaðurinn myndi nema milljörðum króna á tímum þar sem stefndi í halla á ríkissjóði. Þá gagnrýndi hann þær ákvarðanir stjórnvalda að bíða með aðgerðir og sagði andvaraleysi og ráðleysi ríkisstjórnarinnar reynast rosalega dýrt. Það væru fjölskyldurnar í landinu og hið almenna atvinnulíf sem greiddu herkostnaðinn.
Þá benti Steingrímur á verðbólga hér væri 12 prósent á ársgrundvelli og ef fasteignaverð væri ekki farið að lækka væri verðbólga síðustu þriggja mánaða á fjórða tug prósenta. Sagði hann herkostnaðinn liggja í verðbólgunni og hæstu stýrivöxtum í heimi.
Þrátt fyrir gagnrýni Steingríms J. voru menn sammála um nauðsyn lántökunnar. Deilt var um hvort taka hefði átt lánið fyrr. Stjórnarandstaðan sagði,að þá hefði mátt koma í veg fyrir verðbólgu og mikla gengislækkun en stjórnin sagði,að það hefði orðið mikið dýrara að taka lánið fyrr.
Ég tel,að lántaka þessi sé óhjákvæmileg. Og ef til vill mun það eitt að Seðlabankinn hafi yfir þessu fjármagni að ráða styrkja fjármálakerfið og stöðu Íslands út á við.
Bjöegvin Guðmundsson
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Eigum við, skattborgarar, að taka ábyrgð á ævintýramennsku einkarekinna banka erlendis? Væri ekki réttara að þeir skiptu upp erlendri og innlendri starfsemi sinni og að íslenzka ríkið láti sig engu varða þá erlendu starfsemi, hvorki til ríkisábyrgðar né til að lána þeim?
En ef þetta kemur óafstýranlega yfir okkur, af því að ríkisstjórnarflokkarnir eru svo innilega sammála, þá er a.m.k. lágmark, að við fáum að sjá, á hvaða kjörum þetta verður lánað – vextirnir þurfa að vera allmiklu hærri en lántökuvextir Seðlabankans, því að ekki kemur til greina, að hann tapi á þessu, og þarf þar að taka tillit til bæði eðlilegrar ávöxtunar, lækkaðs lánshæfismats Seðlabankans og ríkissjóðs vegna þessa, sem og til þeirrar áhættu, sem í þessum lánum verður fólgin – til banka sem virðast geta orðið gjaldþrota eins og önnur fyrirtæki.
Jón Valur Jensson, 27.5.2008 kl. 12:11
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.