Laun hækkuðu um 7,1% frá fyrra ári

Samkvæmt vísitölu launa voru regluleg laun að meðaltali 2,8% hærri á fyrsta ársfjórðungi 2008 en í ársfjórðungnum á undan. Á sama tímabili hækkuðu laun á almennum vinnumarkaði um 2,6% að meðaltali og laun opinberra starfsmanna um 3,1%. Frá fyrra ári hækkuðu laun um 7,1%, 7,5% á almennum vinnumarkaði og um 6,1% hjá opinberum starfsmönnum. Þetta kemur fram í frétt Hagstofu Íslands.

Á  fyrri ársfjórðungi hækkuðu laun sérfræðinga mest eða um 3,8% en laun iðnaðarmanna hækkuðu minnst, um 2,1%. Laun sérfræðinga hækkuðu jafnframt mest frá fyrsta ársfjórðungi 2007 eða um 10,9% en laun iðnaðarmanna hækkuðu minnst, 5,7%.

Hækkun launa eftir atvinnugrein mældist mest í fjármálaþjónustu, lífeyrissjóðum og vátryggingum (J), 3,5%  frá fyrri ársfjórðungi en minnst mældist hækkun launa í iðnaði (D) og  samgöngum og flutningum (I), 2,3%.  Frá fyrra ári hækkuðu regluleg laun í fjármálaþjónustu, lífeyrissjóðum og vátryggingum (J) mest eða um 11,8% en minnst mældist hækkunin í iðnaði (D), 5,7%.

Kjarasamningar flestra stéttarfélaga starfsmanna ríkisins og sveitarfélaga gerðu ráð fyrir 2%–3% hækkun launataxta frá 1. janúar 2008. Samkvæmt samkomulagi um endurskoðun kjarasamnings Kennarasambands Íslands (fyrir hönd Félags grunnskólakennara og Skólastjórafélags Íslands) og Launanefndar sveitarfélaganna hækkuðu einnig öll starfsheiti félagsmanna um einn launaflokk þann 1. mars 2008.

Kjarasamningur Samtaka atvinnulífsins og Sambands íslenskra bankamanna kvað á um 2,25% hækkun launa þann 1. janúar 2008.  Kjarasamningar Samtaka atvinnulífsins og landssambanda og stærstu aðildarfélaga Alþýðusambands Íslands voru hins vegar lausir um áramót.

Nýir samningar sem aðilar undirrituðu þann 17. febrúar síðastliðinn komu að hluta til framkvæmda undir lok fyrsta ársfjórðungs 2008. Samkvæmt samningunum hækka launataxtar um 18.000 krónur frá 1. febrúar 2008, auk þess sem í þeim er kveðið á um sérstaka launaþróunartryggingu sem felur í sér 5,5% lágmarkshækkun launa frá janúar 2007 til gildistöku nýrra samninga, að því er segir í frétt Hagstofu Íslands.

Samkvæmt þessu hafa laun hækkað mun minna en verðbólgan en verðbólga á ársgrundvelli er nú 12,3%.

 

Björgvin Guðmundsson

Fara til baka 


mbl.is Laun hækkuðu um 7,1% á milli ára
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband