Miðvikudagur, 11. júní 2008
Björgvin viðskiptaráðherra setur þak á innheimtukostnað
Með innheimtulögum sem alþingi samþykkti samhljóða á síðustu dögum vorþingsins hefur verið sett þak á kostnað sem hægt er að krefjast þess að skuldari borgi. Þar eru einnig ákvæði um góða innheimtuhætti sem eiga að tryggja að ekki sé beitt óhæfilegum þrýstingi eða hótunum. Þar eru sett skilyrði um hæfni innheimtumanna og reglur um skriflega rukkun, innheimtuviðvörun, þar sem meðal annars er ákveðinn greiðslufrestur. Við þetta batnar mjög réttarstaða skuldara, en raunar einnig kröfuhafa gagnvart innheimtumanni.
Frumvarp Björgvins G. Sigurðssonar viðskiptaráðherra sem nú er orðið að innheimtulögum er liður í öflugri neytendapólitík af hans hálfu og ríkisstjórnarinnar. Það er byggt á stjórnarfrumvarpi sem Finnur Ingólfsson flutti árið 1998 en dagaði tvisvar uppi í þinginu. Endurflutti viðskiptaráðherra það ekki síðan, en Jóhanna Sigurðardóttir tók það hinsvegar upp nokkuð breytt og flutti fjórum sinnum á þingunum 2003 til 2006. Upphaflega frumvarpið var undirbúið í nefnd undir forystu Atla Freys Guðmundssonar, sem nú er skrifstofustjóri neytendamála í viðskiptaráðuneytinu, og var samið að norrænni fyrirmynd.
Nýju lögin hafa því verið heilan áratug í fæðingu og hefur andstaða lögmanna einkum tafið lagasetninguna en Neytendasamtökin og önnur almannasamtök á hinn bóginn hvatt Jóhönnu og aðra þingmenn til dáða. Málalyktir urðu þær á þinginu að lögin voru samþykkt samhljóða með tæknilegum breytingum viðskiptanefndar en formaður hennar er Samfylkingarmaðurinn Ágúst Ólafur Ágústsson. Einn þingmaður, Birgir Ármannsson úr Sjálfstæðisflokki, sat hjá í atkvæðagreiðslu um greinina þar sem fjallað er um hámark innheimtukostnaðar, hafði gert fyrirvara við hana í viðskiptanefndinni en skýrði þann fyrirvara ekki í umræðunum eða við atkvæðagreiðsluna.
Björgvin G.Sigurðsson er röskur viðskiptaráðherra og lætur hendur standa fram úr ermum. Hann á þakkir skilið fyrir að koma þesu máli um innheimtukostnað í gegnum alþingi.
Björgvin Guðmundsson
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.