Miðvikudagur, 25. júní 2008
Virkjað í neðri Þjórsá?
Áætlun um gerð Holtavirkjunar og Hvammsvirkjunar er tilbúin eftir að breytingartillögur á aðalskipulagi Skeiða- og Gnúpverjahrepps voru samþykktar. Landsvirkjun ætlar að sækja um framkvæmdaleyfi en meðal kaupenda að orkunni er álverið í Straumsvík.
Tillaga að breytingu á aðalskipulagi Skeiða- og Gnúpverjahrepps var samþykkt samhljóða á fundi Hreppsnefndar. Breytingin felur í sér að Holtavirkjun og Hvammsvirkjun komast inn á skipulagið. Inntakslón Hvammsvirkjunar, Hagalón, verður myndað með stíflu í Þjórsá. Lónið verður 4,6 ferkílómetrar og mun stórt landsvæði fara undir vatn. Nokkrir bæir missa land undir lónið.
Fyrirhugaðar virkjunarframkvæmdir hafa sætt mikilli gagnrýni. Gunnar Örn Marteinsson, oddviti hreppsnefndar Skeiða- og Gnúpverjahrepps, segir breytingartillöguna vera nú til umsagnar hjá Skipulagsstofnun. Hann segir virkjunarframkvæmdirnar geta orðið vítamínsprauta fyrir atvinnulífið á svæðinu.
Friðrik Sophusson, forstjóri Landsvirkjunar, segir að fyrirtækið ætli að sækja um framkvæmdaleyfi fyrir Urriðafossvirkjun, Hvammsvirkjun og Holtavirkjun. Ekki er hins vegar búið að taka ákvörðun um það hvenær það verður gert. Friðrik segir Landsvirkjun vera með kaupendur að orkunni en búið er að skrifa undir samning við Verne Holding. Meðal annarra kaupenda er álverið í Straumsvík.
Mjög eru skiptar skoðanir um framangreindar virkjanir.Margir telja,að hér sé um náttúruperlur að ræða,sem eigi að hlífa. Einnig er bent á,að laxveiðin á þessu svæði Þjórsár kunni að vera í hættu ef virkjað er þarna.Persónulegalega tel ég æskilegra að ráðast í gufuaflsvirkjanir og ef unnt er að fá nægilega mikla rafirku frá slíkum vikjunum þá eigi að sleppa vatnaaflvirkjunum.
Björgvin Guðmundsson
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:55 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.